Erlent

Segir Prigoz­hin í Rúss­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfsmyndasafn Prigozhin sem rússneskir fjölmiðlar hafa birt eftir húsleit yfirvalda hjá honum. Þar sést hann með ýmis konar hárkollur og gerviskegg.
Sjálfsmyndasafn Prigozhin sem rússneskir fjölmiðlar hafa birt eftir húsleit yfirvalda hjá honum. Þar sést hann með ýmis konar hárkollur og gerviskegg. Vísir

Alexander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, segir að Jevgeníj Prigozhin, leiðtogi Wagner-málaliðahópsins, sé staddur í Rússlandi og málaliðar hans séu í herbúðum sínum. Innan við tvær vikur eru frá því að Prigozhin og málaliðar hans gerðu uppreisn gegn rússneskum hermálayfirvöldum.

Rússneskir fjölmiðlar hafa greint frá því að sést hafi til Prigozhin í Pétursborg þar sem Wagner-hópurinn er með höfuðstöðvar sínar. Samkomulag sem hann gerði við stjórnvöld um að binda enda á uppreisn sína hafi falið það í sér að hann fengi að ganga frá málum sínum í borginni, að því er kemur fram hjá AP-fréttastofunni.

Lúkasjenka, sem hafði milligöngu um samkomulagið, sagði fréttamönnum í dag að það væri rétt að Prigozhin væri í Pétursborg. Málaliðar hans væru í búðum sínum þar en Lúkasjenka tiltók ekki hvar þær væru.

Prigozhin og málaliðar hans sölsuðu undir sig höfuðstöðvar rússneska hersins í Rostov við Don og voru komnir nokkur hundruð kílómetra frá Moskvu þegar þeir létu staðar numið 24. júní. Rússnesk stjórnvöld ætluðu að leysa málaliðahópa eins og Wagner upp um mánaðamótin.

Eftir að uppreisninni lauk fengu Prigozhin og þeir sem tóku þátt í uppreisninni að fara til Hvíta-Rússlands í nokkurs konar útlegð. Rússnesk stjórnvöld féllust á að fella niður sakamál gegn þeim fyrir uppreisnina.

Rússnesk yfirvöld gerðu húsleit hjá Prigozhin eftir uppreisnina. Vefsíðan Fontanka hefur birt myndir og myndbönd af lúxussetri Prigozhin og persónulegum munum hans, þar á meðal hárkollusafni hans. Hún birti einnig sjálfsmyndir af Prigozhin með hárkollur og í erlendum herklæðum.


Tengdar fréttir

Segir Rúss­land sam­einað sem aldrei fyrr

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, fullyrti að þjóð sín væri sameinuð sem aldrei fyrr þegar hann ávarpaði fjölþjóðlega ráðstefnu í dag. Sakaði hann vestræn ríki um að gera Úkraínu að óvinveittu ríki sem væri andstæða Rússlands.

Svara ekki spurningum um örlög hátt setts hershöfðingja

Stjórvöld í Kreml svara ekki spurningum um Sergei Surovikin, fyrrverandi yfirmann innrásarhersins í Úkraínu, sem ekkert hefur spurst til frá því að málaliðaforingi gerði uppreisn gegn hermálayfirvöldum um helgina. Óstaðfestar heimildir herma að Surovikin hafi verið handtekinn.

Prigoz­hin kominn á áfangastað

Aleksander Lúkasjenka, forseti Belarús, tilkynnti fyrir skömmu að Jevgeníj Prigozhin væri kominn til landsins. Útlegð hans til landsins var hluti af samkomulagi um endalok skammvinnrar uppreisnar Wagner-málaliðahóps hans um helgina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×