Erlent

Segir Rúss­land sam­einað sem aldrei fyrr

Kjartan Kjartansson skrifar
Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifa undir skjöl á fundi Samvinnustofnunar Sjanghæ (SCO). Rússar og Kínverjar stofnuðu samtökin til höfuðs vestrænum samvinnustofnunum.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti skrifa undir skjöl á fundi Samvinnustofnunar Sjanghæ (SCO). Rússar og Kínverjar stofnuðu samtökin til höfuðs vestrænum samvinnustofnunum. AP/Alexander Kazakov/Sputnik

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, fullyrti að þjóð sín væri sameinuð sem aldrei fyrr þegar hann ávarpaði fjölþjóðlega ráðstefnu í dag. Sakaði hann vestræn ríki um að gera Úkraínu að óvinveittu ríki sem væri andstæða Rússlands.

Aðildarríki Samvinnustofnunar Sjanghæ (SCO), þar á meðal Indland, Kína og Rússland, funduðu í gegnum fjarfundarbúnað í dag. Sá félagsskapur er mun vinveittari Pútín og Rússlandi en aðrar alþjóðlegar stofnanir um þessar mundir, sérstaklega eftir að Rússar gerðu sjálfa sig að úrhraki í alþjóðasamfélaginu með því að ráðast inn í Úkraínu í fyrra.

Ávarp Pútíns var jafnframt það fyrsta á alþjóðlegum vettvangi eftir skammlífa uppreisn Jevgeníj Prigozhin og Wagner-málaliðahers hans í síðasta mánuði.

„Rússneska þjóðin er sameinaðri sem aldrei fyrr. Stjórnmálasamfélagið og allt samfélagið sýndi samstöðu og ábyrgð á örlögum föðurlandsins með því að mynda sameinað víglínu gegn tilraun til vopnaðrar uppreisnar,“ sagði Pútín.

Aðrir þjóðarleiðtogar forðuðust að nefna uppreisnartilraunina beint en hörmuðu afleiðingar hennar, að sögn AP-fréttastofunnar. Pútín þakkaði þeim fyrir stuðninginn en sakaði vestræn ríki um að egna Úkraínu gegn Rússlandi. Forsetinn hefur ítrekað kennt vesturlöndum um að hann hafi ákveðið að ráðast á Úkraínu.

Íranir fengu inngöngu í SCO á ráðstefnunni í dag. Aðildarríki stofnunarinnar eru þar með orðin níu: Kína, Rússland, Indland, Pakistan, Kasakstan, Kirgistan, Tadsíkistan og Úsbekistan. Hvíta-Rússland gæti orðið tíunda aðildarríkið á næstunni, að sögn AP-fréttastofunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×