Íslenski boltinn

Sextán ára hetjan: „Þetta er algjör draumur“

Sindri Sverrisson skrifar
Sigdís Eva Bárðardóttir var frábær fyrir Víkinga í kvöld og skoraði bæði mörk liðsins.
Sigdís Eva Bárðardóttir var frábær fyrir Víkinga í kvöld og skoraði bæði mörk liðsins. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

„Þetta er svo geggjað, að við séum í Lengjudeildinni og séum að fara á Laugardalsvöll. Þetta er æðislegt,“ segir Sigdís Eva Bárðardóttir, hin 16 ára hetja Víkinga sem skoraði bæði mörk liðsins þegar það tryggði sér sæti í bikarúrslitum í fyrsta sinn.

Þrátt fyrir að spila í næstefstu deild hafa Víkingar slegið út efstudeildarlið Selfoss og nú FH, með 2-1 sigri í Kaplakrika í kvöld, og þar með spilar liðið til úrslita á Laugardalsvelli gegn annað hvort Stjörnunni eða Breiðabliki. Eitthvað sem Sigdísi óraði ekki fyrir fyrr í sumar.

„Bara alls ekki. Bikarkeppnin var fyrst fyrir okkur bara svona bónus, til að fá fleiri leiki og reynslu. En við erum komnar á Laugardalsvöll! Þetta er frábært.“

Sigdís Eva skoraði eins og fyrr segir bæði mörk Víkinga, og í bæði skiptin eftir fyrirgjafir frá hægri þar sem hún lúrði á fjærstöng.

„Ég var bara mætt á fjær. Ég veit hvað ég þarf að gera. Ég vissi að markvörðurinn gæti misst af boltanum og ég var bara mætt,“ segir Sigdís.

Áður en að bikarúrslitaleiknum kemur, 12. ágúst, þarf Sigdís að bregða sér til Belgíu því hún var valin í leikmannahóp U19-landsliðsins sem spilar í lokakeppni EM seinni hluta júlí:

„Þetta er bara frábært. Þetta er algjör draumur,“ segir skælbrosandi Sigdís sem nýtur þess að spila með ungu liði Víkinga:

„Við erum þrjár fæddar 2006, ein 2007, og erum mjög ungt lið, allt Íslendingar, og sú elsta í liðinu er nýorðin 27 ára. Það er bara geggjað að við höfum náð svona langt. Núna fögnum við bara og njótum helgarinnar,“ segir Sigdís. En hvað með úrslitaleikinn?

„Það er allt mögulegt, sérstaklega á Laugardalsvelli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×