Erlent

Mæðgin látin eftir harm­leik í Eystra­salti

Máni Snær Þorláksson skrifar
Móðirin er sögð hafa stokkið út í sjóinn eftir að sonur hennar féll frá borði ferjunnar Stena Spirit.
Móðirin er sögð hafa stokkið út í sjóinn eftir að sonur hennar féll frá borði ferjunnar Stena Spirit. Stena Line

Sjö ára drengur féll frá borði ferju í Eystrasalti síðdegis í gær. Móðir drengsins er sögð hafa stokkið út í sjóinn á eftir syni sínum til að bjarga honum. Þau fundust í sjónum en voru ekki með meðvitund og hafa nú bæði verið úrskurðuð látin.

Atvikið átti sér stað í miðju Eystrasalti, milli sænsku borgarinnar Karlskrona og Póllands, um sjötíu kílómetrum suður af sænsku eyjunni Öland. Voru mæðginin farþegar um borð í sænsku ferjunni Stena Spirit.

Farið var af stað með miklar björgunaraðgerðir eftir að móðirin stökk í sjóinn á eftir syni sínum. Samkvæmt norska fjölmiðlinum VG var meðal annars hætt við æfingu Atlantshafsbandalagsins vegna aðgerðanna. Þá hafi flugvél bandarísku landhelgisgæslunnar aðstoðað ásamt nokkrum þyrlum.

Um klukkan 17:30 í gær var tilkynnt að bæði móðirin og sonur hennar hefðu fundist. Farið var með þau á sjúkrahús í kjölfarið en samkvæmt Göteborgs-Posten var hvorugt þeirra með meðvitund þegar þeim var bjargað úr sjónum. Þá hafi endurlífgunartilraunir báru ekki árangur.

Samkvæmt Aftonbladet, sem vitnar í yfirlýsingar frá pólsku lögreglunni, voru mæðginin sem um ræðir frá Póllandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×