Erlent

Flutningur hælis­leit­enda til Rúanda dæmdur ó­lög­legur

Kjartan Kjartansson skrifar
Niðurstaða áfrýjunardómstólsins er áfall fyrir Suellu Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, og bresku ríkisstjórnina.
Niðurstaða áfrýjunardómstólsins er áfall fyrir Suellu Braverman, innanríkisráðherra Bretlands, og bresku ríkisstjórnina. AP

Breskur áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Rúanda teldist ekki öruggt ríki og því væru áform stjórnvalda um að senda hælisleitendur þangað ólögleg í dag. Dómarar töldu verulega hættu á að hælisleitendur væru sendir til heimalands síns þaðan.

Hælisleitendur og samtök sem styðja þá áfrýjuðu dómi lægra dómstigs um að Rúanda teldist öruggt ríki. Tveir dómarar af þremur við áfrýjunardómstólinn sneru úrskurðinum við og vísuðu til galla á hælisleitendakerfinu í Rúanda sem þýddi að veruleg hætta væri á því að hælisleitendum væri snúið aftur til landsins sem þeir flúðu upphaflega. Á meðan ekki er bætt úr þeim göllum megi bresk stjórnvöld ekki senda hælisleitendur þangað.

Dómararnir tóku fram að þeir létu ekki í ljós neina efnislega skoðun á þeirri stefnu að senda hælisleitendur til þriðja ríkis. Það væri algerlega á hendi ríkisstjórnar landsins, ekki dómstóla.

Bresk stjórnvöld greindu frá því í fyrra að þau hefðu náð samkomulagi við ríkisstjórn Rúanda um að senda hælisleitendur þangað og greiða milljónir punda fyrir. Sú stefna á meðal annars að koma í veg fyrir að flóttafólk freistist til þess að reyna að sigla yfir Ermarsund til Bretlands.

Enn hefur þó ekkert orðið af því að hælisleitendur séu sendir til Rúanda, að sögn Politico. Dómstóll hafnaði því að stöðva áætlun stjórnvalda í fyrra.

Suella Bravermen, innanríkisráðherra Bretlands, er sögð ætla að ávarpa breska þingið og lýsa næstu skrefum eftir niðurstöðu áfrýjunardómstólsins á eftir.

Talsmaður rúandskara stjórnvalda mótmælti því að landið teldist ekki öruggt fyrir hælisleitendur og flóttafólk. Þvert á móti væri Rúanda eitt öruggasta ríki í heimi og flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefði viðurkennt að meðferð þess á flóttafólki væri til fyrirmyndar.

Danir hafa einnig gert samkomulag við Rúanda um flutning hælisleitenda þangað. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, hefur lýst áhuga á að fara að fordæmi þeirra.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×