Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Fylkir 1-1 | Allt jafn í fall­bar­áttuslagnum

Atli Arason skrifar
Pétur Bjarnason skoraði mark Fylkis í kvöld.
Pétur Bjarnason skoraði mark Fylkis í kvöld. Vísir/Anton Brink

Keflavík og Fylkir mættust í fallbaráttuslag í 12. umferð Bestu-deildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli sem gerir töluvert meira fyrir Fylki á meðan Keflavík er sem fyrr á botni deildarinnar. 

Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið varkár í nálgun sinni á leiknum enda mikið undir fyrir þessi lið í 10. og 12. sæti deildarinnar.

Keflvíkingar áttu fyrstu alvöru marktilraunina á 19. mínútu þegar Frans Elvarsson átti skot fyrir utan D-bogann sem Ólafur Kristófer í marki Fylkis átti ekki í vandræðum með. Skömmu síðar var Ólafur aftur vel á verði þegar hann varði skot frá Sindra Þór eftir flottan sóknarleik Keflavíkur upp vinstri vænginn.

Á 33. mínútu kom Ólafur í veg fyrir sjálfsmark þegar samherji hans, Orri Sveinn, ætlar að hreinsa boltann í burtu en sparkar knettinum beint í Sindar Þór. Þaðan fer boltinn aftur í Orra og breytti um stefnu í átt að marki en Ólafur bregst vel við og handsamaði knöttinn.

Það voru svo Fylkismenn sem skoruðu fyrsta mark leiksins á 35. mínútu, þegar góð hornspyrna Óskars Borgþórssonar rataði beint á kollinn á Pétri Bjarnasyni. Kollspyrna hans var kröftug en Mathias Rosenörn ver hana spyrnuna en boltinn var kominn yfir marklínuna áður en Mathias kom hönd í bolta og mark dæmt.

Gestirnir fóru því með eins marks forystu inn í leikhlé.

Í síðari hálfleik hélt Ólafur Kristófer áfram að ráða við allt það sem Keflvíkingar buðu upp á. Það var ekki fyrr en eftir tvöfalda skiptingu Keflvíkinga, að tveir varamenn þeirra náðu að leika saman og skora jöfnunarmarkið á 76. mínútu. Viktor Andri átti þá fyrirgjöf af hægri væng sem Edon Osmani náði að mæta og koma knettinum yfir marklínuna.

Keflvíkingar voru nálægt því að setja sigurmarkið á 83. mínútu þegar snögg hornspyrna Sindra Snæs ratar á Dag Inga sem átti skot innan vítateigs, skot sem fer af samherja hans, Magnúsi Þór, og þaðan rétt fram hjá stönginni. Meira markvert skeði ekki og því lauk leiknum með 1-1 jafntefli.

Af hverju varð jafntefli?

Heilt yfir var ekki mikið um fína drætti í þessum leik. Keflvíkingar voru kannski nær því að sækja stigin þrjú en jafntefli var sennilega sanngjörn niðurstaða þegar allt er tekið með.

Hverjir stóðu upp úr?

Ólafur Kristófer Helgason, markvörður Fylkis, átti flottan leik í rammanum og réð nánast við allt sem heimamenn buðu upp á.

Í liði Keflavíkur var fyrirliðinn Magnús Þór Magnússon fremstur á meðal jafningja. Magnús stóð vörnina vel og var einnig hættulegur á hinum helmingi vallarins.

Hvað gerist næst?

Keflvíkingar fara næst í heimsókn til KR í Vesturbæ á meðan Fylkir tekur á móti toppliði Víkings í Árbænum.

„Erfiðar aðstæður“

Rúnar Páll er þjálfari Fylkis.Vísir/Diego

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis, taldi jafntefli vera sanngjörn úrslit í kvöld.

„Þetta voru sanngjörn úrslit miðað við það hvernig leikurinn þróaðist. Þetta var hörku leikur og þetta var bara eins og maður reiknaði með, langir boltar fram og barátta um seinni boltann. Við réðum ágætlega við það en þetta er þeirra hættulegasti leikur. Við vorum algjörir klaufar að fá þetta mark á okkur, eins og kannski alltaf þegar maður fær mark á sig. Við hefðum auðveldlega getað komið í veg fyrir það, annars bara sanngjörn úrslit,“ sagði Rúnar Páll í viðtali við Vísi eftir leik.

„Þetta eru bara erfiðar aðstæður fyrir bæði lið þó það hafi verið blanka logn og svona, það er ekki það. Völlurinn býður bara ekki upp á fallegan fótbolta. Þetta var bara stöðubarátta út um allan völl og mikið af tæklingum og svona. Við byrjum seinni umferðina [af deildinni] allavegana betur en við byrjuðum þá fyrri.“

„Það var óþarfi að tapa boltanum hérna á miðjunni og svo vorum við komnir of mikið úr stöðu vinstra megin á vellinum. Umfram allt eigum við að dekka leikmenn inn í vítateig, það er ekki flóknara en það. Við hefðum getað komið í veg fyrir þetta,“ svaraði Rúnar, aðspurður út í markið sem Fylkir fékk á sig.

Verkefnið verður ekkert mikið auðveldara fyrir Fylki, þegar þeir taka á móti bikarmeisturum Víkings í næstu umferð.

„Það verður allt öðruvísi leikur gegn allt öðruvísi andstæðing. Við getum ekki horft mikið á frammistöðuna úr þessum leik fyrir leikinn gegn Víking, það er allt annar leikur gegn besta liði landsins. Við verðum að eiga okkar besta leik til að fá eitthvað á móti Víkingi,“ sagði Rúnar, áður en hann bætti við.

„Við þurfum að bæta allt í frammistöðu okkar úr þessum leik fyrir næsta leik gegn Víking, varnarleik og sóknarleik. Leikurinn í dag bauð ekki upp á mikinn sóknarleik en í kvöld spiluðum við aðeins öðruvísi en við höfum gert áður, með tvo frammi á móti Keflavík til að reyna að berjast gegn þessum löngu boltum og öðru slíku. Þú mætir ekki þannig á móti Víking, þannig við getum ekki tekið neitt úr þessum leik sem flyst yfir á Víkings leikinn,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylkis.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira