Enski boltinn

Til liðs við Reggístrákana hans Heimis: „Jamaíka hefur alltaf verið mér ofar­lega í huga“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Demarai Gray í þann mund að tryggja Everton dýrmætan sigur.
Demarai Gray í þann mund að tryggja Everton dýrmætan sigur. Martin Rickett/Getty Images

Demarai Gray, leikmaður enska knattspyrnufélagsins Everton, hefur ákveðið að gefa Heimi Hallgrímssyni, þjálfara Jamaíka, möguleika á að velja sig í komandi verkefni.

Hinn 26 ára Gray er nokkuð þekkt stærð í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa spilað með Leicester City um árabil og nú Everton. Þá lék hann með Bayer Leverkusen í efstu deild Þýskalands árið 2021.

Gray spilaði á sínum tíma 38 leiki fyrir yngri landslið Englands, þar af 26 leiki fyrir U-21 landsliðið. Hann var hins vegar aldrei valinn í A-landsliðið og hefur nú ákveðið að nýta sér það að vera með tvöfaldan ríkisborgararétt þar sem amma hans og afi eru frá Jamaíka.

Í frétt The Athletic um málið segir að Heimir hafi verið í sambandi við Gray síðan hann tók við í september. Það virðist hafa gengið þar sem Gray ætlar að slá til og gæti myndað ansi skemmtilega framlínu ásamt Michail Antonio, framherja West Ham United, og Leon Bailey, vængmanns Aston Villa.

Ekki veitir af þar sem Jamaíka hefur spilað 10 leiki án sigurs.


Tengdar fréttir

Reggístrákarnir sem bíða Heimis

Frumraun Heimis Hallgrímssonar sem landsliðsþjálfara Jamaíku verður gegn Argentínu, rétt eins og frumraun Íslands á HM 2018, í Bandaríkjunum í lok september. Nokkrir vel þekktir leikmenn eru í jamaíska landsliðshópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×