Innlent

Í­búar kvörtuðu og körfurnar voru settar upp aftur

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Körfurnar voru settar aftur upp við Seljaskóla í dag.
Körfurnar voru settar aftur upp við Seljaskóla í dag. Einar Guttormsson

Körfu­bolta­körfur við Selja­skóla í Reykja­vík voru settar upp aftur nú síð­degis, eftir fjölda kvartana. Mikla at­hygli vakti þegar körfurnar voru teknar niður. Reykjavíkurborg segir körfur ekki verða fjarlægðar á skólalóðum. 

Einar Gutt­orms­son, íbúi í grennd við skóla­lóðina, vekur at­hygli á því á í­búa­hópi á Face­book að körfurnar hafi nú verið settar upp aftur. Það var ein­mitt Einar sem vakti á því at­hygli þegar þær voru teknar niður um helgina á sjálfan þjóð­há­tíðar­daginn 17. júní.

„Þegar ég vaknaði í morgun sá ég að verk­takar voru að taka niður körfurnar. Ég spurði þá út í þetta og fékk þau svör að eigna­um­sýsla Reykja­víkur­borgar hefði fyrir­skipað þetta,“ sagði Einar um helgina en hann er öllu kátari í dag og taka í­búar undir með honum.

Körfurnar höfðu verið teknar niður vegna kvartana íbúa vegna há­vaða frá ung­mennum á körfu­bolta­vellinum. Málið vakti mikla at­hygli um helgina og fannst mörgum illa vegið að ung­lingum borgarinnar, að geta ekki leikið sér úti í körfu­bolta að sumri til.

„Stundum borgar sig að hafa hátt!“ skrifar Einar en tugir íbúa bregðast við færslu hans inni á í­búa­hópnum og er mikil á­nægja með mála­lyktir.

Í dag sagði nafni hans Einar Þor­steins­son odd­viti Fram­sóknar­flokksins í Reykja­vík og verðandi borgar­stjóri við Morgun­blaðið að körfurnar ættu að fara aftur upp sem fyrst. Borgar­ráð hefði fyrst tekið á­kvörðun um að fjar­læga körfurnar um sumar­tímann fyrir tveimur árum síðan en Einar sagðist ekki hafa vitað af málinu fyrr en nú.

Körfur verði hvergi fjarlægðar í sumar

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna málsins kemur fram að körfuboltaspjöldin við Seljaskóla hafi verið sett upp aftur og að þau verði ekki fjarlægð af öðrum skólalóðum.

Þar sem þau eru mjög nálægt íbúðabyggð verða sett upp upplýsingaskilti um að notkun sé ekki heimil eftir ákveðinn tíma á kvöldin, að því er segir í tilkynningunni.

Nágrannar sem búa nálægt nokkrum grunnskólum í Reykjavík hafa kvartað yfir hávaða sem myndast þegar hópar safnast saman við körfuboltaspjöld á meðan á sumarlokun skólanna stendur, og oft standa leikar fram á kvöld. Reykjavíkurborg hefur orðið við óskum um að fækka spjöldum næst íbúðabyggð samkvæmt tilkynningunni.

Þá segir þar að fjölmargar ábendingar hafi borist borginni um helgina þegar fjarlægð voru spjöld á lóð Seljaskóla í Breiðholti og voru ferlar teknir til endurskoðunar í kjölfarið, eins og því er lýst. Spjöldin verða nú sett aftur á sinn stað í dag eða í síðasta lagi á morgun.

Fréttin var uppfærð kl. 15:54 með tilkynningu frá Reykjavíkurborg vegna málsins. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×