Erlent

Þriggja daga þjóðarsorg í Grikklandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Gríska strandgæslan tók þessa mynd af fiskibáti flóttamannanna á miðvikudag, skömmu áður en bátnum hvolfdi.
Gríska strandgæslan tók þessa mynd af fiskibáti flóttamannanna á miðvikudag, skömmu áður en bátnum hvolfdi. AP/Gríska strandgæslan

Stjórnvöld í Grikklandi hafa fyrirskipað þriggja daga þjóðarsorg eftir að 79 manns á flótta fórust þegar báti þeirra hvolfdi úti fyrir ströndum landsins í gær. Óttast er um afdrif hundraða annarra sem voru á bátnum.

Á þessari mynd frá grísku strandgæslunni má sjá yfir hlaðinn fiskibátinn skömmu áður en hann sökk. Strandgæslunni tókst að bjarga hundrað og fjórum, aðallega karlmönnum, meðal annars frá Egyptalandi, Sýrlandi, Pakistan, Afganistan og Palestínu.

Óttast er að jafnvel hundruð sem höfðust við neðan þilja á bátnum hafi farist til viðbótar við þá 79 sem lík hafa fundist af. Flaggað er í hálfa stöng víðast hvar í Grikklandi í dag og stjórnvöld hafa fyrirskipað þriggja daga þjóðarsorg. Flestir þeirra hundrað og fjögurra sem var bjargað hafa verið fluttir til aðhlynningar í bænum Kalamata með aðstoð gríska Rauða krossins.

Reynt er að hlúa eftir bestu getu að þeim 104 sem komust lífs af í vöruskemmu í bænum Kalamata í Grikklandi.AP/Thanassis Stavrakis

Erasmia Roumana starfsmaður flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna segir reynt að veita þeim sem komust af neyðaraðstoð eftir bestu getu.

„Fólkið þarf á læknis- og sálfræðiaðstoð að halda. Fólkið er í miklu áfalli og það þarf að ná sambandi við ástvini og fjölskyldur. Það er í forgangi hjá fólkinu að tjá fjölskyldum sínum að þau séu heil á húfi,“ segir Roumana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×