Erlent

„Það er enn engin hjálp“

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólki bjargað á vesturbakka Dnipróár.
Fólki bjargað á vesturbakka Dnipróár. AP/Libkos

Fólk sem situr fast í húsum á austurbakka Dnipróár í Úkraínu segir litla hjálp berast frá Rússum. Fólk sem hefur reynt að koma öðrum til bjargar segist hafa lent í því að rússneskir hermenn taki báta þeirra. Aðrir segja að hermennirnir hjálpi ekki fólki nema þau hafi rússnesk vegabréf.

Stór svæði eru undir vatni eftir að Kakhovka-stíflan í Kherson-héraði brast í vikunni. Stíflan var undir stjórn Rússa og var líklega sprengd upp. Yfirvöld í Úkraínu vöruðu við því í október að Rússar hefðu komið fyrir sprengiefnum í stíflunni.

Áætlað er að um sex hundruð ferkílómetrar í Kherson-héraði hafi farið undir vatn eftir að stíflan brast og þar af eru um tveir þriðju svæðisins undir stjórn Rússa. Talið er að þúsundir manna sitji enn fastir á þessu svæði en stíflan brast á aðfaranótt þriðjudagsins.

Blaðamenn AP ræddu við hina nítján ára gömlu Jektaríun Bút, sem hafði þá setið föst á háalofti húss með 83 ára afa hennar og tveimur öðrum eldri borgurum. Þau höfðu engan aðgang að vatni, mat né rafmagni og sími hennar var að verða rafmagnslaus.

„Við óttumst að enginn muni vita af okkur þegar við deyjum,“ sagði Bút við AP. „Það er allt á floti í kringum okkur. Það er enn engin hjálp.“

Þau eru föst í bænum Oleshky, þar sem um 24 þúsund manns bjuggu fyrir innrás Rússa í fyrra.

Einnig var rætt við konu sem á ættingja á svæðinu en er stödd í Þýskalandi. Hún sagði blaðamönnum að ættingjar hennar væru meðal á annan tug manna sem hefðu leitað sér hæð á efri hæð tveggja hæða húss. Þau sögðu henni að rússneskir hermenn hefðu komið til þeirra á báti en neitað að hjálpa fólki sem væri ekki með rússnesk vegabréf.

Frá Kherson-borg. Stórir hlutar hennar fóru undir vatn.AP/Libkos

Blaðamenn AP segjast ekki hafa getað sannreynt þessa frásögn en hún sé í takt við það sem sjálfstæðir rússneskir miðlar hafi sagt frá.

Á vesturbakka Dnipróár hafa yfirvöld Úkraínu unnið hörðum höndum að því að koma fólki til bjargar og flytja það á brott. Björgunarsveitir á svæðinu urðu þó fyrir stórskotaliðsárásum frá austurbakkanum í gær.

Vitað er að fimm hafi dáið og er minnst þrettán saknað, samkvæmt yfirvöldum í Úkraínu. Minna er vitað um ástandið á austurbakkanum Fjölmargir hafa misst heimili sín og tugir þúsunda eru án hreins drykkjarvatns.


Tengdar fréttir

Stór sprenging inni í stíflunni líklegasta orsökin

Líklegasta ástæða þess að Kakhovka-stíflan í Kherson-héraði í Úkraínu brast, er að miklu magni sprengiefna hafi verið komið fyrir inni í stíflunni og hún sprengd. Aðrar ástæður eins og eldflaugaárás og mikið álag eru mögulegar en mun ólíklegri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×