Mateo Kovacic hefur viðurkennt að hann búist við að yfirgefa Chelsea í lok tímabilsins þrátt fyrir að eiga eitt ár eftir af samningi sínum hjá liðinu.
Í samtali við króatíska tímaritið Nacional daðraði Kovacic við Englandsmeistara Manchester City en hann hefur verið orðaður við lið City að undanförnu.
„Ég á eitt ár eftir en þetta tímabil var hræðilegt. Allt stefnir í að eftir fimm góð ár þá muni ég breyta til, í fótbolta getur allt gerst. Í augnablikinu einbeiti ég mér að Króatíu og Þjóðadeildinni,“ en Króatía mætir Hollandi í Þjóðadeildinni í næstu viku.
„Manchester City er frábært lið og eiga skilið að vera í úrslitum Meistaradeildarinnar. Það er það sem ég hef að segja. Sumarið er langt, sjáum til hvað gerist.“
Hann er þó ánægður í Lundúnum og virðist nokkuð tvístígandi um framtíðina.
„Chelsea er frábært fyrir mig. Ég elska borgina og stuðningsmennina, þeir elska mig. Ég á frábærar minningar héðan. Við sjáum til hvað gerist.“