Íslenski boltinn

Arnar sér ekki eftir um­mælum sínum: „Bara nokkuð sáttur“

Valur Páll Eiríksson og Aron Guðmundsson skrifa
Arnar á hliðarlínunni gegn Breiðabliki
Arnar á hliðarlínunni gegn Breiðabliki Vísir/Hulda Margrét

Arnar Gunn­laugs­son, þjálfari karla­liðs Víkings Reykja­víkur í fót­bolta, sér ekki eftir um­mælum sínum í hita­við­tali sem hann fór í á Stöð 2 Sport strax eftir bar­áttu­leik gegn Breiða­bliki á dögunum þar sem að sauð upp úr.

Arnar var veru­lega ó­sáttur með dóm­gæsluna í 2-2 jafn­tefli Breiða­bliks og Víkings á Kópa­vogs­velli á dögunum og nú, þegar að nokkrir dagar eru liðnir frá leik liðanna, hefur Arnari tekist að melta það sem þar gekk á.

„Þetta var hörku leikur þar sem tekist var á, það er mín skoðun á þessu,“segir Arnar í sam­tali við Vísi. „Það hefur ekkert upp á sig að vera enda­laust að ræða um það hver átti hverja sök, hver gerði hvað. Fólk getur bara dæmt um það sjálft.“

Hann er búinn að horfa á um­rætt við­tal við sig á Stöð 2 Sport og sér ekki eftir um­mælum sínum þar.

„Ég viður­kenni það alveg að ég kveið fyrir því að horfa á við­talið eftir leik. En svo þegar að ég gerði það þá var ég bara nokkuð sáttur. Það voru auð­vitað þarna nokkur orð sem voru kannski að­eins of hörð en skila­boðin voru bara nokkuð góð. Ég hef alveg oft tekið það á mig þegar að ég hef sagt ein­hverja þvælu en mögu­lega voru ein­hver orð þarna að­eins of hörð.“

Hann telur hins vegar að Óskar Hrafn Þor­valds­son, þjálfari Breiða­bliks og Höskuldur Gunn­laugs­son, fyrir­liði Blika, sjái eftir ein­hverjum um­mælum í sínum við­tölum.

Óskar sagði Víkinga meðal annars hafa hagað sér eins og fá­vitar allan leikinn á bekknum. Þeir hafi verið á­rásar­gjarnir, öskrandi á allt.

„Ég sá við­tölin, bæði við þjálfara sem og fyrir­liða Breiða­bliks og ég held að menn hafi bara sagt ýmis­legt í hita leiksins sem þeir sjá eftir. Menn geta verið að tala um dómarann og sagt á­kveðna hluti í hita leiksins.

En það er til quot­e er snýr sér­stak­lega að meisturum sem er í þá átt að þú virðir and­stæðinginn og talar vel um hann. Ég held að bæði Óskar Hrafn og Höskuldur sjái eftir um­mælum sínum í við­tölunum eftir leik.“

Höskuldur sagði Víkinga hafa sýnt af sér ó­fag­mennsku þeir væru eins og „litlir hundar sem gelta hátt.“

„Ég veit að Höskuldur er topp­drengur og ég held að hann sjái eftir þessu,“ segir Arnar um um­mæli Höskuldar. „Það er bara nægi­leg refsing. Þetta er sagt í hita leiksins og er ó­líkt hans karakter, ég fyrir­gef honum.“

Aga­nefnd KSÍ kemur saman til fundar á morgun og verða eftir­málar leiks Víkings og Breiða­bliks á dag­skrá. Arnar á von á því að tekið verði á málum þar.

„Ég á klár­lega von á því bara út frá skýrslu dómarans að það verði tekið á málum Sölva og Loga, þeir náttúru­lega fengu rauð spjöld.

Við fáum tæki­færi til þess að svara fyrir okkur og munum gera það af krafti. Það eru ýmsar upp­tökur til sem koma ekkert vel út fyrir á­kveðna aðila og við munum klár­lega verja okkar menn. Við sjáum til hvað gerist.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×