Innlent

Tölu­verður eldur þegar kviknaði í stjórn­borði fyrir heitan pott

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það sást vel í eldinn frá götunni.
Það sást vel í eldinn frá götunni. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í miðborg Reykjavíkur í gærkvöldi eða nótt þegar eldur kviknaði í stjórnborði fyrir heitan pott, á svölum fjölbýlishúss. Engan sakaði í eldsvoðanum en eldurinn var töluverður.

Atvikið er meðal þeirra sem greint er frá í yfirliti frá lögreglu yfir verkefni næturinnar.

Lögregla var kölluð til vegna tveggja kvenna sem voru til vandræða en um var að ræða tvö aðskilin tilvik. Í öðru var kona handtekin fyrir að vera til vandræða á bráðamóttöku Landspítalans en sleppt eftir að hún lofaði bót og betrun.

Í hinu tilvikinu var kona í annarlegu ástandi með vesen á veitingastað. Var henni ekið heim þar sem útséð var með að hún kæmist þangað hjálparlaust.

Einn var handtekinn í Hafnarfirði og vistaður í fangageymslu vegna hótana og vopnalagabrots. Þá voru tveir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Í Kópavogi ók ökumaður torfæruhjóls á unga stúlku sem var að leika sér á skólalóð. Var hún flutt á slysadeild en talið að meiðsl hennar væru minniháttar. Þá varð umferðaróhapp á Reykjanesbraut þar sem ökumaður ók á vegrið en hann er talinn hafa sofnað undir stýri.

Engin slys urðu á fólki en bifreiðin var óökufær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×