Erlent

Hálf milljón mótmælti stjórnvöldum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins og fyrrverandi forsætisráðherrann Donald Tusk fór fyrir mótmælendum.
Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins og fyrrverandi forsætisráðherrann Donald Tusk fór fyrir mótmælendum. EPA

Um hálf milljón Pólverja mótmæltu stjórnvöldum á götum úti í dag og kröfðust lýðræðisumbóta. Fyrrverandi forsætisráðherrann Donald Tusk segir um að ræða fjölmennustu mótmælin í landinu frá falli kommúnismans. 

Hægrisinnaði flokkurinn Lög og réttur komst til valda í landinu árið 2015. Síðan þá hafa stjórnvöld verið harðlega gagnrýnd fyrir andlýðræðislega stjórnarhætti. Meðal aðgerða ríkisstjórnar er að minnka óhæði dómstóla og fara í herferðir gegn hinsegin samfélagi landsins.

„Við erum hér hálf milljón saman komin,“ sagði Donald Tusk, sem fór fremstur í flokki mótmælenda. 

„Pólland, Evrópa og heimurinn allur sér hversu sterk við erum og hve reiðubúin við erum til að berjast fyrir lýðræði og frelsi aftur, líkt og við gerðum fyrir þrjátíu, fjörtíu árum síðan,“ sagði Tusk við mannfjöldann í upphafi ræðu sinnar.

Tusk, sem sat tvö kjörtímabil sem forsætisráðherra Póllands frá 2007 til 2014, hefur snúið aftur í landspólitíkina eftir fimm ára setu sem forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins. Hann er leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, PO.

Mótmælendur kröfðust breytinga.

„Fyrir þrjátíu og fjórum árum vorum við saman komin og kröfðumst réttinda. Við verðum að endurheimta fyrri styrk og breyta reiðinni í styrk,“ sagði Lech Wałęsa borgarstjóri Varsjár.

„Ég vil búa í frjálsu og lýðræðislegu evrópulandi, þar sem réttindi kvenna og minnihlutahópa eru virt og kirkjan stjórnar ekki öllu,“ sagði Kinga Sawicka. 

Kosningar fara fram í landinu næsta haust og mjótt er á munum milli Laga og réttar og PO. Samkvæmt könnunum getur hvorugur flokkur myndað hreinan meirihluta á þingi.

Frétt Guardian um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×