Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 4 -0 KA | Stjarnan lyftir sér úr fallsæti með stórsigri

Dagur Lárusson skrifar
_O2A4869
VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Stjarnan fór með 4-0 sigur af hólmi er liðið mætti KA í Bestu deild karla í kvöld.

Fyrir leik var Stjarnan í ellefta sæti deildarinnar með sjö stig á meðan KA var með fjórtán stig í fimmta sætinu.

Leikurinn byrjaði heldur rólega en hvorugt lið átti alvöru færi fyrr en á 28. mínútu en þá fékk Ísak Andri boltann vinstra megin, fór fram hjá varnarmanni áður en hann gaf fyrir á Eggert Aron sem þurfti að teygja sig í boltann og skot hans rétt yfir markið.

Eggert var þó ekki lengi að gera upp fyrir þetta því aðeins tveimur mínútum síðar var hann búinn að koma Stjörnunni yfir. Þá var það aftur Ísak Andri með boltann vinstra megin og Eggert tók utanáhlaup fram hjá honum og inn á teig, fékk boltann og stýrði honum glæsilega í hægra hornið og staðan orðin 1-0 og þannig var staðan í hálfleik.

Stjarnan gerði breytingu í hálfleik en Guðmundur Kristjánsson fór af velli og Hilmar Árni Halldórsson kom inná. Það tók Stjörnumenn ekki langan tíma að skora annað markið en það gerðist á 51. mínútu. Þá var það Kjartan Már sem fékk boltann hægra megin og gaf boltann með fram jörðinni inn á teig þar sem Ísak Andri kom á ferðinni og stýrði boltanum með hælnum í markið. Einkar glæsilegt mark hjá Ísaki Andra.

Það voru síðar varamennirnir Hilmar Árni Halldórsson og Emil Atlason sem skoruðu sitthvort markið. Hilmar Árni skoraði á 62. mínútu eftir að Stjarnan vildi fá vítaspyrnu eftir mögulegt brot varnarmans KA en boltinn datt fyrir fætur Hilmars sem negldi honum í netið fram hjá Kristijan.

Emil Atlason skoraði síðan á 83. mínútu eftir frábæran undirbúning Eggerts Aron sem vann boltann á eigin vallarhelming og tók langan sprett þar sem hann fór fram hjá hverjum varnarmanninum á fætur öðrum áður en hann sendi á Emil sem lagði hann fyrir sig og skaut föstu skoti beint í vinstra hornið. Lokatölur 4-0 í Garðabænum.

Af hverju vann Stjarnan?

Leikmenn Stjörnunnar voru mikið ákveðnari í öllu og skipulag liðsins var til fyrirmyndar en KA átti aðeins þrjú skot að marki í öllum leiknum.

Hverjar stóðu uppúr?

Ísak Andri og Eggert Aron léku á alls oddi í dag og skoruðu báðir eitt mark og lögðu upp annað. Það voru sóknarmennirnir sem stálu senunni en það má ekki gleyma varnarmönnunum sem spiluðu óaðfinnanlega og gáfu engin alvöru færi á sér.

Hvað fór illa?

Sóknarleikur KA-liðsins var hvergi sjáanlegur og liðið átti aðeins þrjú skot að marki. Eini leikmaður liðsins sem reyndi að gera eitthvað var Hallgrímur Mar.

Hvað gerist næst?

Næsti leikur Stjörnunnar er 11.júní gegn Keflavík á meðan næsti leikur KA er gegn Fylki þann 10.júní.

„Margt sem við höfum unnið í sem small í þessum leik“

Jökull Elísabetarson t.h.Stjarnan

„Ég er mjög ánægður með þennan leik og það er mjög margt jákvætt sem við tökum úr honum,“ byrjaði Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, að segja eftir leik.

„Það er margt sem við erum búnir að vera að vinna í sem var að smella í þessum leik og allt sem við gerðum var mjög gott og þess vegna munum við fagna þessum sigri vel og innilega,“ hélt Jökull áfram.

Jökull talaði meira um þá hluti sem þeir hafa verið að vinna að og smullu í þessum leik.

„Varnarleikurinn var auðvitað mjög góður og betri heldur en oft áður og það er eitthvað sem við leggjum mikla áherslu á. Svo fannst mér við vera með fullkomin tök á leiknum alveg út leikinn. Þeir gera smá áhlaup þarna undir lokin en fyrir utan það vorum við með mjög gott tak á þessum leik.“

Jökull talaði um það að atvikið þar sem Örvar Logi þurfti að fara útaf í byrjun leiks gæti hafa verið kveikjan að góðri frammistöðu liðsins.

„Ég svosem veit ekki hver kveikjan var. Ég man ekki alveg á hvaða mínútu atvikið með Örvar gerist en við vorum auðvitað frekar reiðir eftir það og það gæti hafa kveikt á einhverju.“

„Svekktur að tapa enn og aftur 4-0“

Hallgrímur Jónasson er þjálfari KAHulda Margrét

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var að vonum vonsvikin eftir 4-0 tap síns liðs gegn Stjörnunni í kvöld.

„Ég er auðvitað bara mjög svekktur og hvað þá að tapa enn og aftur 4-0,“ byrjaði Hallgrímur á að segja í viðtali eftir leik.

„Við þurfum að átta okkur á því að við þurfum að vinna ákveðna grunnvinnu saman því KA-lið sem tapar enn öðrum leiknum 4-0 er ekki að gera þá grunnvinnu,“ hélt Hallgrímur áfram.

Hallgrímur talaði um það að sínir leikmenn hafi byrjað leikinn alltaf rólega og það hafi sett tóninn fyrir leikinn.

„Fyrri hálfleikurinn var allt of passífur, þetta er lið sem er búið að vera í vandræðum en eru vissulega góðir á boltann og við einfaldlega leyfðum þeim að vera það. Þeir skoruðu fyrsta markið og við það efldust þeir og við fórum niður á við.“

„En það er klárt mál að við þurfum að gera betur því þeir skora fjögur mörk og það er allt of mikið. Við verðum samt að muna að við erum ennþá í þeirri stöðu að geta látið þetta sumar koma vel út. En núna verðum við allir að fara vel yfir þetta, ég, liðið og aðrir og gera betur næst,“ endaði Hallgrímur á að segja.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira