Trump hafði með sér fjölda leynilegra skjala sem tilheyra alríkisstjórninni þegar hann lét af embætti forseta árið 2021. Eftir að opinber rannsókn hófst á því hvort að hann hefði brotið lög hélt hann því fram að hann hefði verið búinn að aflétta leynd af öllum skjölunum. Það hafi hann gert „sjálfkrafa“ með almennri skipun sem hann á að hafa gefið undirsátum sínum.
CNN-fréttastöðin greindi frá því í gær að upptaka sem var gerð sumarið 2021 sé í andstöðu við þessar skýringar Trump. Hún gæti verið lykilsönnunargagn í rannsókn Jacks Smith, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytisins, á hvort að Trump hafi brotið lög um meðferð leyniskjala og reynt að hindra fulltrúa alríkisstjórnarinnar í að endurheimta þau.
Ræddi um skjal um mögulega árás á Íran
Á upptökunni heyrist Trump viðurkenna að hafa hangið á leynilegum skjölum frá varnarmálaráðuneytinu um mögulega árás á Íran. Heimildir CNN herma að Trump hafi áttað sig á að skjölin sem hann tók með sér væru enn ríkisleyndarmál. New York Times staðfesti tilvist upptökunnar hjá eigin heimildarmönnum í kjölfarið.
Upptakan er sögð hafa verið gerð á fundi í tengslum við ritun æviminninga Marks Meadows, skrifstofustjóra Hvíta hússins undir lok forsetatíðar Trump. Í bókinni lýsir Meadows því að Trump hafi rætt um skýrslu Marks Milley, formanns herforingjaráðs Bandaríkjanna, um árás á Íran.
Á fundinum voru tveir menn sem unnu að æviminningum Meadows auk aðstoðarmanna Trump. Engin þeirra hafði öryggisheimild til þess að fá aðgang að leynilegum upplýsingum. Þannig kann Trump að hafa gerst sekur um að ljóstra upp um ríkisleyndarmál.
Húsleit var gerð á heimili Trump í Flórída vegna rannsóknarinnar í fyrra. Fram að þessu hafa fundist fleiri en þrjú hundruð skjöl sem voru merkt leynileg í fórum Trump, þar á meðal nokkur sem voru skilgreind sem háleynileg.