Íslenski boltinn

„Var ekki alveg að nenna þrjá­tíu mínútum í við­bót“

Jón Már Ferro skrifar
Álfhildur Rósa, fyrirliði Þróttara
Álfhildur Rósa, fyrirliði Þróttara Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Þróttur Reykjavík gerði sér lítið fyrir og sló ríkjandi bikarmeistara Vals úr leik í 16-liða úrslitum Mjólkurbikar kvenna í kvöld með mögnuðum endurkomusigri.

„Ég get ekki lýst því. Bikarinn er allt öðru­vísi keppni heldur en Íslandsmótið. Þetta er rosa­lega sætur sigur. Sér­stak­lega að sjá hann inni þarna í lokinn. Ég er ó­trú­lega glöð með þetta,“ sagði Álf­hildur Rósa Kjartans­dóttir, fyrir­liði Þróttar, eftir 2-1 sigur á móti Val í Mjólkur­bikarnum.

Valur komst yfir eftir fimm mínútna leik þegar Haley Lanier Berg skoraði eftir lag­legan undir­búning Jamia Fields.

„Í fyrri hálf­leik vorum við ekki að halda boltanum nógu vel. Þetta var svo­lítið strembið og þær skoruðu snemma sem gaf tón inn í leikinn. Við áttum góða hálf­leiks­ræðu og komum mjög sterkar inn í seinni hálf­leikinn. Mér fannst við vera betri aðilinn í seinni hálf­leik og náðum að klína inn tveimur mörkum sem ég er ó­trú­lega sátt með,“ sagði Álf­hildur.

Hún spilaði vel í stöðu varnar­sinnaðs miðju­manns og braut ó­fáar sóknir Vals á bak aftur.

„Við vorum ekki með nógu mikið sjálfstraust og vorum hræddar við að halda boltanum. Það var heldur ekki nógu mikil trú á okkur sjálfar en sýndum í seinni hálf­leik að við getum haldið bolta og vorum ó­hræddar við að spila,“ sagði Álf­hildur.

Hún stýrði spilinu vel á miðjunni. Sam­herjar hennar framar á vellinum misstu boltann þó oftar en ekki þegar þær voru við það að komast í góða stöðu í og við teig Vals.

„Við vorum að gefa boltann frá okkur, negla honum upp. Í staðinn fyrir að gera það sem við gerum best. Að spila í gegn. Við gerðum það betur í seinni hálf­leik.“

Leik­menn beggja liða voru eðli­lega orðnir þreyttir. Þegar lítið var eftir af leiknum benti ekkert annað til þess en að spilaðar yrðu þrjá­tíu mínútur til við­bótar til að skera úr um sigur­vegara.

„Maður var alveg orðin svo­lítið þreyttur og var að vona að við myndum klára þetta. Ég var ekki alveg að nenna þrjá­tíu mínútum í við­bót,“ Álf­hildur.

Sóknar­leikur Þróttar varð mun betri í seinni hálf­leik.

„Í hálf­leik náðum við að peppa okkur. Ef að þær gátu skorað í fyrri þá gátum við alveg skorað tvö í seinni. Það þurfti bara smá trú. Það kom þarna í lokin,“ sagði Álf­hildur.

Þróttur spilar ekki með eigin­lega kant­menn heldur tvo fram­herja og þrjá miðju­menn þar fyrir aftan. Þar af leiðandi er oftar en ekki lítið um kantspil.

„Katy (Katherine Amanda Cousins) er rosa­lega góð í að fá hann í fætur og við erum með aðra góða leik­menn, eins og Kötlu (Tryggva­dóttur) og Sæunni (Björns­dóttur), á miðjunni sem geta haldið bolta og spilað á milli lína. Þær voru að loka vel á miðjuna hjá okkur. Þannig það var erfitt að finna hana í gegn. Við erum allar góðar að spila boltanum, sama hvar það er á vellinum. Það tókst að lokum,“ sagði Álf­hildur að lokum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.