Leik lokið: Þróttur 2-1 Valur | Bikar­meistararnir úr leik

Jón Már Ferro skrifar
Vísir/Vilhelm

Þróttur Reykjavík gerði sér lítið fyrir og sló út ríkjandi bikarmeistara Vals er liðin mættust í 16-liða úrslitum Mjólkurbikar kvenna í kvöld. Lokatölur í Laugardalnum 2-1 sigur Þróttara.

Gestirnir frá Hlíðar­enda skoruðu fyrsta markið snemma leiks þegar Haley Lani­er Berg af­greiddi boltann snyrti­lega í netið. Jöfnunar­mark Þróttar kom á 79. mínútu en það skoraði Freyja Katrín Þor­varðar­dóttir af stuttu færi. Sigur­markið kom svo á 88. mínútu við mikinn fögnuð Þróttara.

Eftir að Valur skoraði fyrsta mark leiksins var Þróttur meira með boltann og reyndi hvað það gat að skora jöfnunar­markið. Sóknar­leikur þeirra var hins vegar afar ó­sann­færandi og olli Val litlum á­hyggjum.

Valur spilaði góðan varnar­leik mest allan leikinn og beitti skyndi­sóknum og voru ekki ó­lík­legri aðilinn til að skora í fyrri hálf­leik. Þrátt fyrir að vera minna með boltann. Það átti hins vegar eftir að breytast í seinni hálf­leik því sóknar­leikur Þróttar batnaði til muna og þær hertu tökin.

Jöfnunar­mark Þróttar kom eftir dæmi­gerða sókn þeirra. Tanya Laryssa fékk boltann á miðjum vellinum. Hún snéri miðju­menn Vals af sér, spretti á ógnar­hraða í áttina að víta­teignum áður en hún renndi boltanum til hliðar á Mi­kenna McManus, sem skar boltann fyrir markið á Freyju Katrínu sem gat ekki annað en skorað.

Um það bil tíu mínútum seinna skoraði Sæunn Björns­dóttir eftir slæm mis­tök Fann­eyjar Ingu Birkis­dóttur. Fann­ey ætlaði að grípa fyrir­gjöf Ísa­bellu Önnu Hú­berts­dóttur. Það tókst ekki og boltinn féll fyrir fætur Sæunnar.

Sigur Þróttar var að lokum verð­skuldaður en naumur. Varnar­leikur Vals var að mestu leiti frá­bær en Þróttur nýtti tæki­færi sín vel og unnu þar af leiðandi vægast sagt sætan sigur.

Af hverju vann Þróttur?

Leik­menn Vals virtust ekki ráða við öll þau skörð sem hoggin eru í leik­manna­hóp liðsins því það dró veru­lega af þeim eftir því sem á leið leikinn. Mikið er um meiðsli en einungis fjórir vara­menn voru á bekk Vals í kvöld. Þar af einungis þrír úti­spilarar.

Hverjar stóðu upp úr?

Kat­herine Amanda Cousins stóð upp úr að lokum. Hún tók af skarið þegar Þróttur þurfti á að halda og þræddi sig í gegnum völlinn með frá­bærum ein­leik sem varð að lokum til þess að þær jöfnuðu leikinn.

Fram að jöfnunar­markinu hafði Þrótti gengið brösug­lega að skapa færi.

Hvað gekk illa?

Framan af leik gekk Þrótti illa að spila sig upp völlinn eins og þær virtust vilja gera. Oftar en ekki reyndu þær ó­tíma­bærar sendingar sem annað hvort fóru alla leið til Fann­eyjar í marki Vals eða út af vellinum.

Einnig reyndu þær margar sendingar með jörðinni á þröngu svæði fram völlinn í stað þess að spila boltanum úr einu svæði í annað. Það kom þó ekki að sök í dag.

Hvað gerist næst?

Liðin mætast aftur mið­viku­daginn 31. maí klukkan 19:15. Aftur verður leikið á Avis vellinum en nú í Bestu deildinni. Leikurinn verður að sjálf­sögðu í beinni út­sendingu á rás Bestu deildarinnar.

„Eins og við viljum ekki vera með boltann“

Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar Reykjavíkur

Eðli­lega var Nik Cham­berlain, þjálfari Þróttar, sáttur í leiks­lok. Hann var á­nægður með leik­menn sína og sagði þá spila vel. Hann svaraði því játandi að vera á­nægður með sigurinn.

„Já. Þetta er fyrsta skipti sem við vinnum Val á tíma­bili og að koma til baka er frá­bært,“ sagði Nik.

Þrótti gekk illa að spila boltanum á milli sín á vallar­helming Vals en það breyttist í seinni hálf­leik.

„Við vorum ekki með nógu mikið sjálfs­traust. Við hikuðum, við trúðum ekki og leik­menn voru ekki að koma sér í nægi­lega góða stöðu með boltann. Við fórum yfir það í hálf­leik og bættum það. Við tókum boltann niður og fundum milli­svæðin. Við vissum að þær myndu pressa okkur en við eigum að vera nógu góðar til að spila okkur úr þröngum svæðum,“ sagði Nik.

„Í fyrri hálf­leik var eins og við vildum ekki vera með boltann,“ sagði Nik.

Það var lítið um kantspil hjá Þrótti enda eru þær ekki með eigin­lega kant­menn. Þrátt fyrir að spil þeirra gengi illa vildi Nik ekki breyta um taktík í hálf­leik heldur koma Mi­kenna McManus vinstri bak­verði þeirra ofar á völlinn.

„Þess vegna vildum við koma Mi­kenna ofar á völlinn. Þrátt fyrir að þær væru með línuna ofar­lega. Ef við gætum spilað boltanum í svæðin inni á miðjuna þá gætum við teygt að­eins á þeim. Þetta snerist ekki um taktík heldur trú,“ sagði Nik.

„Finnst ó­trú­legt að við skildum vera efstar“

Pétur Pétursson, þjálfari ValsVÍSIR/VILHELM

„Meiðsli og veikindi hjá okkur. Mér fannst við svo sem alveg stjórna þessu lengi sér­stak­lega í fyrri hálf­leik og vorum eitt núll. Ég veit ekki hverju við breyttum í seinni hálf­leik en Þróttararnir spiluðu svo sem vel í seinni hálf­leik,“ sagði Pétur Péturs­son, þjálfari Vals.

Eðli­lega var Pétur ó­sáttur í leiks­lok en hann hrósaði einnig Þrótt fyrir góða spila­mennsku í seinni hálf­leik.

„Þú þarft að ná öðru markinu og við náðum því ekki í fyrri hálf­leik. Mér fannst við alveg getað það. Mér fannst við ekki spila þetta vel í seinni hálf­leik og hrós á Þrótt,“ sagði Pétur.

„Ég bara veit það ekki,“ sagði Pétur um hvort leik­menn sem eru meiddir væru á leiðinni til baka inn í hópinn. En margir leik­menn eru frá vegna meiðsla hjá Val.

Þrátt fyrir á­föll er Valur efst í deildinni og spurning hvort liðið haldi sig þar.

„Mér finnst ó­trú­legt að við skildum vera efstar miðað við okkar mót­læti. Vonandi höldum við því bara á­fram. Við vorum fimm ár í fyrra að ná titlinum í bikarnum og svona er þetta. Þú þarft að vinna alla leiki. Núna er það bara Ís­lands­mótið sem við tökum þátt í og meistara­deildin í haust. Við gerum það bara al­menni­lega,“ sagði Pétur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.