Innlent

Segja vinnu­brögð Sorpu í Kópa­vogi veru­lega á­mælis­verð

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, er meðal þeirra sem skrifuð er fyrir bókun meirihlutans þar sem vinnubrögð Sorpu eru harðlega gagnrýnd.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, er meðal þeirra sem skrifuð er fyrir bókun meirihlutans þar sem vinnubrögð Sorpu eru harðlega gagnrýnd. Vísir/Arnar

Bæjar­stjórnar­meiri­hluti Kópa­vogs­bæjar telur vinnu­brögð Sorpu og starfs­hóps á vegum hennar sem falið var staðar­val fyrir nýja endur­vinnslu­stöð, á­mælis­verð. Þetta kemur fram í bókun meiri­hlutans á bæjar­stjórnar­fundi sem fram fór í gær.

Þar kemur fram að meiri­hlutinn telji að sú stað­setning sem lögð var til í skýrslu starfs­hópsins fyrir nýja endur­vinnslu­stöð Sorpu sé ekki raun­hæfur mögu­leiki. Stað­setningin er Arnar­nes­vegur, við Kópa­vogs­kirkju­garð, en sú hug­mynd féll í grýttan jarð­veg meðal íbúa Kópa­vogs.

Loka á endur­vinnslu­stöð Sorpu á Dal­vegi á næsta ári og hefur stöðinni enn ekki verið fundinn nýr staður. Í bókun meiri­hlutans segir að mikil­vægt sé að fara í þarfa og val­kosta-greiningu áður en lengra sé haldið.

For­svars­menn kirkju­garðsins kannist ekki við við­ræður

Ás­dís Kristjáns­dóttir, bæjar­stjóri Kópa­vogs, og Orri V. Hlöð­vers­son for­maður bæjar­stjórnar, segja í að­sendri grein á Vísi, að hug­myndin um Sorpu­stöð við Kópa­vogs­kirkju­garð hafi komið eins og þruma úr heið­skíru lofti.

„Fram kom að ó­form­legar við­ræður hafi farið fram við kirkju­garðinn en for­svars­menn hans og for­svars­menn Linda­kirkju kannast ekki við það. Þeir voru því jafn­undrandi og bæjar­búar þegar fréttin birtist. Stað­setning endur­vinnslu­stöðvar við kirkju­garð er mikil van­virðing við hina látnu og að­stand­endur þeirra.“

Þá segja þau Ás­dís og Orri að ó­tækt hafi verið að láta annan ára­tug líða með Sorpu á­fram á Dal­vegi. Í­búar hafi í­trekað óskað eftir brott­hvarfi Sorpu af Dal­vegi og deilu­skipu­lag svæðisins geri ráð fyrir annars konar þjónustu fyrir bæjar­búa.

Þau segja mikil­vægt að finna heppi­lega stað­setningu fyrir nýja endur­vinnslu­stöð sem þjóni hags­munum Kópa­vogs­búa og annarra íbúa höfuð­borgar­svæðisins. Sorpa sé í sam­eigin­legri eigu sveitar­fé­laganna á höfuð­borgar­svæðinu.

„Stað­setning endur­vinnslu­stöðva á að ráðast út frá heppi­legustu stað­setningu á höfuð­borgar­svæðinu, óháð sveitar­fé­laga­mörkum. Ef heppi­leg stað­setning finnst í Kópa­vogi fyrir nýja endur­vinnslu­stöð þá fögnum við því.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.