Þar kemur fram að meirihlutinn telji að sú staðsetning sem lögð var til í skýrslu starfshópsins fyrir nýja endurvinnslustöð Sorpu sé ekki raunhæfur möguleiki. Staðsetningin er Arnarnesvegur, við Kópavogskirkjugarð, en sú hugmynd féll í grýttan jarðveg meðal íbúa Kópavogs.
Loka á endurvinnslustöð Sorpu á Dalvegi á næsta ári og hefur stöðinni enn ekki verið fundinn nýr staður. Í bókun meirihlutans segir að mikilvægt sé að fara í þarfa og valkosta-greiningu áður en lengra sé haldið.
Forsvarsmenn kirkjugarðsins kannist ekki við viðræður
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, og Orri V. Hlöðversson formaður bæjarstjórnar, segja í aðsendri grein á Vísi, að hugmyndin um Sorpustöð við Kópavogskirkjugarð hafi komið eins og þruma úr heiðskíru lofti.
„Fram kom að óformlegar viðræður hafi farið fram við kirkjugarðinn en forsvarsmenn hans og forsvarsmenn Lindakirkju kannast ekki við það. Þeir voru því jafnundrandi og bæjarbúar þegar fréttin birtist. Staðsetning endurvinnslustöðvar við kirkjugarð er mikil vanvirðing við hina látnu og aðstandendur þeirra.“
Þá segja þau Ásdís og Orri að ótækt hafi verið að láta annan áratug líða með Sorpu áfram á Dalvegi. Íbúar hafi ítrekað óskað eftir brotthvarfi Sorpu af Dalvegi og deiluskipulag svæðisins geri ráð fyrir annars konar þjónustu fyrir bæjarbúa.
Þau segja mikilvægt að finna heppilega staðsetningu fyrir nýja endurvinnslustöð sem þjóni hagsmunum Kópavogsbúa og annarra íbúa höfuðborgarsvæðisins. Sorpa sé í sameiginlegri eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
„Staðsetning endurvinnslustöðva á að ráðast út frá heppilegustu staðsetningu á höfuðborgarsvæðinu, óháð sveitarfélagamörkum. Ef heppileg staðsetning finnst í Kópavogi fyrir nýja endurvinnslustöð þá fögnum við því.“