Erlent

Kyn­ferðis­brota­maðurinn Rolf Har­ris er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Rolf Harris fyrir utan dómshús í Bretlandi árið 2017.
Rolf Harris fyrir utan dómshús í Bretlandi árið 2017. Getty

Ástralski kynferðisbrotamaðurinn og fyrrverandi sjónvarpsmaðurinn Rolf Harris er látinn, 93 ára að aldri.

BBC segir frá því að Harris hafi verið fundinn sekur um röð kynferðisbrota gegn fjölda ungra stúlkna og kvenna á árunum 1968 til 1986. Réttarhöld í máli hans hófust árið 2014 og hlaut hann fimm ára og níu mánaða fangelsisdóm vegna brota sinna.

Fyrir dómi neitaði Harris sök og bað hann fórnarlömb sín aldrei afsökunar. Honum var sleppt úr fangelsi árið 2017. Harris var fundinn sekur um tólf kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum, aðallega á áttunda og níunda áratugnum.

Áður en upp komst um brot Harris hafði hann stýrt fjölda þátta í bresku og áströlsku sjónvarpi. Sjónvarpsferill hans spannaði um fimmtíu ár þar sem hann stýrði meðal annars barna- og dýraþáttum.

Fjölskylda Harris staðfestir andlátið í samtali við breska fjölmiðla. Ekki liggur fyrir um hvað dró Harris til dauða en vitað er að hann hafði glímt við krabbamein.

Harris var sviptur OBE, MBE og CBE-orðum sínum eftir að hann var sakfelldur fyrir brot sín.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×