Íslenski boltinn

Stúkan ræddi stöðuna á KR: Rúnar á skilið meiri stuðning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Kristinsson á varmannabekknum hjá KR í skellinum á móti Val.
Rúnar Kristinsson á varmannabekknum hjá KR í skellinum á móti Val. Vísir/Diego

Stúkan fór yfir sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta og í Uppbótatímanum var full ástæða til að ræða stöðuna á karlaliði KR.

KR hefur tapað fjórum leikjum í röð, ekki skorað mark í 370 mínútur og er í hópi neðstu liða deildarinnar. Það er óhætt að segja að það sé farið að hitna undir þjálfaranum Rúnari Kristinssyni.

„Uppbótartíminn eftir sjöttu umferð snýst um Knattspyrnufélag Reykjavíkur. KR er með þrjú stig eftir sex umferðir,“ sagði Guðmundur Benediktsson, umsjónarmaður Stúkunnar. Hann sýnd þá verstu byrjanir KR á öldinni en liðið hefur aðeins einu sinni áður fengið færri stig í fyrstu sex leikjunum og þá þurfti þjálfarinn Teitur Þórðarson að taka pokann sinn sumarið 2007.

„Við sáum fréttir um það að formaður knattspyrnudeildar vildi ekki láta hafa neitt eftir sér. Ég spyr bara, er það óeðlilegt eða hefði Rúnar Kristinsson átt að fá einhvern stuðning frá honum í dag. Hvað er ykkar mat á því að hann vilji bara ekki tjá sig um málið,“ spurði Guðmundur sérfræðinga sína.

„Bara hundrað prósent. Það er reyndar oft sagt í þessum heimi að það sé það versta sem þú getur fengið sé að fá einhverja stuðningsyfirlýsingu. Ég byggi það á því að mér finnst að Rúnar eigi ekki að vera valtur í sessi akkúrat núna,“ sagði Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar.

„Rúnar hefur bara gert það mikið fyrir KR. Að fara að reka hann eftir svona fáa leiki er ekki rétt því mér finnst að hann eigi að fá lengra tækifæri til að snúa þessu við. Alla vega fjórar, til fimm, sex umferðir í viðbót,“ sagði Baldur.

„Það er líka af því að spilamennskan hefur verið ágæt og mér finnst hópurinn fínn. Mér finnst akkúrat eins og staðan er núna þá sé Rúnar besti maðurinn til þess að snúa þessu við,“ sagði Baldur.

Það má hlusta á allan Uppbótartímann hér fyrir neðan en Atli Viðar Björnsson segir þá einnig sína skoðun.

Klippa: Stúkan: Uppbótartíminn eftir sjöttu umferð Bestu deildar karla 2023

Tengdar fréttir

Algjör þögn ríkir um stöðu Rúnars

KR tapaði sínum fjórða leik í röð í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöld, 5-0 gegn erkifjendum sínum í Val, og það vekur upp spurningar um stöðu þjálfarans Rúnars Kristinssonar. Formaður knattspyrnudeildar KR vill ekki tjá sig um stöðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×