Erlent

Segja Kadyrov munu taka við fram­línunni í Bak­hmut 10. maí

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kenningar eru uppi um að stjórnvöld í Moskvu séu viljandi að halda aðföngum frá Wagner, til að geta eignað hernum sigra í Bakhmut.
Kenningar eru uppi um að stjórnvöld í Moskvu séu viljandi að halda aðföngum frá Wagner, til að geta eignað hernum sigra í Bakhmut. Getty

Ramzan Kadyrov, leiðtogi Tjéténa og einn dyggasti bandamaður Vladimir Pútíns Rússlandsforseta, hefur boðið liðsmönnum Wagner-málaliðahópsins að ganga til liðs við Akhmat-sveitir sínar í Bakhmut.

Í myndskeiði sem hann birti í dag segir Kadyrov liðsmenn hugrakka og mikilsverða, ekki síst vegna þekkingar sinnar á svæðinu þar sem barist er. 

„Ef þið gangið til liðs við okkur heiti ég því að gefa ykkur meira, skapa betri aðstæður, en þið hafið í dag. Við munum reyna að gera allt fyrsta flokks fyrir ykkur,“ segir hann í ávarpi sínu til Wagner-liða.

Kadyrov birti einnig bréf til Pútín þar sem hann biðlar til forsetans um að fyrirskipa tilfærslu Akhmat-sveita annars staðar í Úkraínu til Bakhmut, til að leysa Wagner af hólmi.

Yevgeny Prigozhin, stofnandi og leiðtogi Wagner, sagði í dag að hann hygðist láta Kadyrov eftir framlínur Wagner-liða frá og með 10. maí. Ekki var annað að skilja en að Kadyrov hefði gengið að boðinu.

Prigozhin sagðist þegar eiga í samræðum við fulltrúa Kadyrov, til að koma því í kring að sveitir hans yrðu reiðubúnar til að taka yfir nákvæmlega þegar Wagner-liðar yrðu uppiskroppa með aðföng og gætu ekki haldið áfram að berjast.

Hann segðir það munu gerast 10. maí.

Prigozhin hefur verið afar ósáttur við stjórnvöld í Moskvu síðustu misseri og segir þau hafa svikið liðsmenn sína um vopn og skotfæri. Á sama tíma hafi þeir verið hryggjarstykkið í átökunum um Bakhmut.

Kadyrov sagði í gær að hann myndi glaður taka yfir fyrir „stóra bróður“, það er að segja Prigozhin. En líkt og erlendir miðlar hafa bent á er erfitt að spá fyrir um hvað gerist 10. maí þar sem bæði Kadyrov og Prigozhin eru þekktir fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar sem eiga sér ekki endilega stoð í raunveruleikanum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×