Íslenski boltinn

Tíu sem hafa blómstrað í upphafi Bestu deildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn sem hafa gert það gott í Bestu deildinni.
Leikmenn sem hafa gert það gott í Bestu deildinni.

Fimmta umferð Bestu deildar karla hefst í kvöld með fjórum leikjum. En hvaða leikmenn hafa slegið í gegn það sem af er tímabils? Vísir fer yfir tíu þeirra.

Örvar Eggertsson, HK

Ef fólk hefði verið beðið um að giska hvaða leikmaður væri búinn að skora í fjórum fyrstu umferðum Bestu deildarinnar fyrir tímabilið hefði sennilega enginn sagt nafn Örvars. Enda hafði hann bara skorað tvö mörk í 71 leik í efstu deild fyrir tímabilið. En Örvar hefur verið sjóðheitur í upphafi móts og skorað í öllum fjórum leikjum HK sem er búið að safna sjö stigum. Hingað til hafa allar Örvar hitt í mark hjá HK-ingnum hárprúða.

Stefán Ingi Sigurðarson, Breiðablik

Önnur óvænt stjarna í upphafi tímabils. Stefán Ingi skoraði tvö mörk í fyrstu tveimur leikjum Breiðabliks í Bestu deildinni eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Hann komst ekki á blað í þriðja leiknum, 2-1 tapi fyrir ÍBV, en var settur í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Fram á föstudaginn. Stefán Ingi þakkaði traustið og skoraði þrennu í dramatískum 5-4 sigri Íslandsmeistaranna. Hann er markahæstur í Bestu deildinni og hefur skorað samtals 21 mark í tuttugu leikjum undanfarin tvö tímabil.

Oliver Ekroth, Víkingur

Svíinn var misjafn á sínu fyrsta tímabili í Víkinni en hefur verið frábær í byrjun þessa tímabils. Hann hefur ekki stigið feilspor í vörninni enda hafa Víkingar ekki enn fengið á sig mark. Þeir eru fyrsta liðið síðan Fram 1990 til að halda hreinu í fyrstu fjórum umferðunum. Auk þess skoraði Ekroth í fyrstu tveimur umferðunum og er markahæsti leikmaður Víkings ásamt Birni Snæ Ingasyni. Víkingar eru eina liðið með fullt hús stiga í Bestu deildinni.

Ísak Andri Sigurgeirsson, Stjarnan

Eins og aðrir leikmenn Stjörnunnar fór Ísak Andri, efnilegasti leikmaður síðasta tímabils, rólega af stað í Bestu deildinni. En hann hefur heldur betur hrokkið í gang í síðustu tveimur leikjum. Hann skoraði eitt mark og lagði upp þrjú í 5-4 sigrinum á HK í 3. umferð og í síðustu umferð skoraði hann bæði mörk Stjörnunnar þegar liðið tapaði fyrir Val, 3-2. Sumsé þrjú mörk og þrjár stoðsendingar í síðustu tveimur leikjum hjá Ísaki sem spilar varla mikið lengur hér á landi ef hann heldur áfram að spila svona. Hefur reynt flesta einleiki (e. dribbles) í deildinni (46).

Kjartan Henry Finnbogason, FH

Eftir stormasamt síðasta tímabil gekk Kjartan Henry til liðs við FH frá KR í vetur. Hann kann vel við sig í svörtu og hvítu, þótt samsetningin sé önnur, og hefur farið vel af stað með FH-ingum í sumar. Hann skoraði í 2-2 jafnteflinu við Fram í 1. umferðinni, lagði upp eina markið í sigrinum á Stjörnunni í 2. umferð og gerði svo tvö mörk í 3-0 sigrinum á KR í síðustu umferð, eitthvað sem honum hefur væntanlega ekkert leiðst. Kjartani Henry vantar nú aðeins eitt mark til að jafna markafjölda sinn frá síðasta tímabili. Þá hafa einungis Ísak Andri og Stefán Ingi komið með beinum hætti að fleiri mörkum en Kjartan Henry í Bestu deildinni í sumar.

Logi Tómasson, Víkingur

Sem fyrr sagði hafa Víkingar ekki enn fengið á sig mark og eru á toppi Bestu deildarinnar. Logi á stóran þátt í því og hefur spilað stórvel í þeim ólíku hlutverkum sem Arnar Gunnlaugsson úthlutar honum, hvort sem það er í vörn eða á miðju. Logi skoraði glæsilegt mark í 3-0 sigrinum á KR sem minnti um margt á markið fræga gegn Val 2019. Logi spilaði stórvel á síðasta tímabili og hefur verið enn betri í sumar.

Frederik Schram, Valur

Valsmenn hafa ekki enn haldið hreinu og fengið á sig sex mörk í fyrstu fjórum umferðunum. Það er samt lítið við Frederik að sakast. Hann hefur haft full mikið að gera í Valsmarkinu eins og á síðasta tímabili en varið virkilega vel. Frederik varði meðal annars vítaspyrnu frá Guðmundi Magnússyni í 1-3 sigrinum á Fram og hefur varið fjórar af sjö vítaspyrnum sem hann hefur fengið á sig í efstu deild.

Guðmundur Magnússon, Fram

Guðmundur átti algjört draumatímabil í fyrra og fékk silfurskóinn eftir að hafa skorað sautján mörk. Gat hann haldið uppteknum hætti frá því þá? Já, allavega miðað við byrjunina hans í sumar. Guðmundur hefur skorað þrjú mörk fyrir Frammara sem eru enn án sigurs á botni deildarinnar. Hann verður að halda upptæknum hætti ef tímabilið á ekki að vera langt og erfitt í Úlfarsárdalnum.

Birnir Snær Ingason, Víkingur

Birnir hefur fengið traustið hjá Arnari Gunnlaugssyni í upphafi tímabils og verið í byrjunarliðinu í öllum leikjum Víkings. Og hann hefur heldur betur staðið undir því. Birnir hefur skorað tvö mörk og er markahæstur Víkinga ásamt Ekroth. Er óhræddur að sækja á bakverði andstæðinganna og hefur reynt 31 einleik í sumar sem er það fjórða mesta í deildinni.

Adam Ægir Pálsson, Valur

Einn mesti skemmtikraftur deildarinnar hefur farið vel af stað í Valstreyjunni. Hann skoraði í 2-1 sigrinum á ÍBV í 1. umferðinni, lagði upp tvö mörk í 1-3 sigrinum á Fram í 3. umferðinni og skoraði eitt af þremur mörkum Vals í 3-2 sigrinum á Stjörnunni í síðustu umferð. Aðeins Ísak Andri og Stefán Ingi hafa komið með beinum hætti að fleiri mörkum en Adam í Bestu deildinni í sumar. Hefur gefið flestar fyrirgjafir í deildinni, eða 26 í heildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×