Erlent

Eldur kviknaði í dreka sem Mikki mús átti að sigra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mikka mús tókst ekki að bjarga neinu í þetta skiptið.
Mikka mús tókst ekki að bjarga neinu í þetta skiptið. AP/Shawna Bell

Eldur kviknaði í véldrekanum Meinhyrnu í Disneyland í Kaliforníu á laugardagskvöld. Kviknaði eldurinn í miðju atriði í skemmtigarðinum en venjan er sú að Mikki mús sigri drekann. Eldurinn var þó fyrri til í þetta skiptið. 

Véldrekinn Maleficent er nefndur eftir illmenninu í kvikmyndinni um Þyrnirós. Í íslenskri þýðingu var Maleficent kölluð Meinhyrna en í kvikmyndinni breyttist hún einmitt í dreka til þess að berjast við prinsinn. Angelina Jolie fór síðan með hlutverk Meinhyrnu í leikinni útgáfu Þyrnirósar sem kom út árið 2014.

Meinhyrna tekur þátt í atriðinu Fantasmic í skemmtigarðinum Disneyland. Þar kemur Meinhyrna og spýr eldi áður en Mikki mús kemur og bjargar deginum. 

Á laugardaginn varð þó einhver bilun í eldkerfi Meinhyrnu og kviknaði í henni. Í myndböndum á samfélagsmiðlum má sjá starfsmenn garðsins biðja fólk um að yfirgefa svæðið á meðan eldurinn logar. 

Klippa: Eldur kviknaði í Meinhyrnu

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kviknar í Meinhyrnu en það gerðist einnig í Flórída árið 2018. Á meðan málið er rannsakað munu engin brögð þar sem notast er við eld vera gerð í görðum Disney um allan heim. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×