Íslenski boltinn

Hefur ekki gerst í tvo áratugi

Sindri Sverrisson skrifar
Eiður Atli Rúnarsson og félagar í HK höfðu ærna ástæðu til að fagna í gærkvöld eftir hreint ævintýralegan sigur gegn erkifjendunum í Breiðabliki.
Eiður Atli Rúnarsson og félagar í HK höfðu ærna ástæðu til að fagna í gærkvöld eftir hreint ævintýralegan sigur gegn erkifjendunum í Breiðabliki. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Hinn hreint út sagt ævintýralegi 4-3 sigur HK gegn Breiðabliki í gærkvöld er merkilegur fyrir margra hluta sakir.

HK komst í 2-0 snemma leiks og var í góðri stöðu allt þar til að um korter var til leiksloka þegar Blikar skoruðu þrjú mörk á um fimm mínútna kafla. Í lok leiks tryggðu HK-ingar sér engu að síður sigur með tveimur mörkum og úr varð sjö marka veisla í fyrstu umferð Íslandsmótsins.

Það hefur ekki gerst í tvo áratugi að ríkjandi Íslandsmeistarar tapi á móti nýliðum í fyrsta leik. Síðast gerðist það eftir óvæntan Íslandsmeistaratitil Skagamanna árið 2001, þegar þeir töpuðu svo fyrir nýliðum Þórs frá Akureyri í fyrsta leik 2002, 1-0.

Þetta er einnig í fyrsta sinn í níu ár þar sem að ríkjandi Íslandsmeistarar tapa fyrsta leik. Þó að ríkjandi meistarar hafi ekki alltaf unnið fyrsta leik þá hafa þeir ekki tapað síðan árið 2014 þegar KR tapaði á heimavelli gegn Val, 1-0.

Þá er þetta líka í fyrsta sinn í fimmtán ár þar sem að ríkjandi Íslandsmeistarar fá á sig meira en þrjú mörk í fyrsta leik. Það gerðist síðast þegar Valur tapaði á heimavelli gegn Keflavík vorið 2008, 5-3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×