Erlent

Á­kæra gefin út á hendur móður barnsins sem skaut kennarann sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Árásin átti sér stað 6. janúar og skólahald hófst ekki aftur fyrr en 30. janúar.
Árásin átti sér stað 6. janúar og skólahald hófst ekki aftur fyrr en 30. janúar. AP/John C. Clark

Kviðdómur í Virginíu í Bandaríkjunum hefur gefið út ákæru á hendur móður sex ára barns sem skaut kennarann sinn með skotvopni. Hún verður meðal annars ákærð fyrir alvarlega vanrækslu barns og brot á skotvopnalögum.

Hin 25 ára Abigail Zwerner særðist alvarlega þegar einn nemenda hennar í Richneck-grunnskólanum í Newport News skaut hana í janúar síðastliðnum. Skólayfirvöld höfðu þá fengið tilkynningu um að barnið væri með byssu í skólanum og væri í „ofbeldisfullu skapi“.

Rannsókn málsins stendur enn yfir þrátt fyrir að ákærur hafi verið gefnar út á hendur móðurinni. Zwerner hefur höfðað mál gegn skólayfirvöldum og krefst 40 milljón dala í miskabætur.

Barnið skaut Zwerner þar sem hún sat við borð sitt, í bringuna og aðra höndina. Hún kom öðrum nemendum í skjól en var svo flutt á sjúkrahús, þar sem hún dvaldi í tvær vikur og gekkst undir fjórar aðgerðir.

Skólastjórinn George Parker III var látinn fjúka í kjölfar atviksins og aðstoðarsólastjórinn, Ebony Parker, sagði upp.

Að sögn fjölskyldu barnsins glímir það við andlega erfiðleika.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×