Erlent

Fjár­mála­ráð­herra Thatcher og pabbi Nigellu látinn

Árni Sæberg skrifar
Nigel Lawson ásamt dóttur sinni Nigellu í útgáfuhófi bókar hans An Appeal To Reason árið 2008.
Nigel Lawson ásamt dóttur sinni Nigellu í útgáfuhófi bókar hans An Appeal To Reason árið 2008. Dave M. Benett/Getty

Nigel Lawson, fjármálaráðherra og áhrifamaður í ríkisstjórn Margaret Thatcher, er látinn 91 árs að aldri. Hann var einni faðir sjónvarpskokksins sívinsæla Nigellu Lawson.

Nigel Lawson vakti gríðarlega athygli þegar hann var fjármálaráðherra Bretlands á árunum 1983 til 1989. Hann leiddi meðal annars vinnu ríkisstjórnar Thatcher við skattalækkanir og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það fyrirkomulag sem þau Thatcher komu á fót hefur að miklu leyti haldið sér í landinu. 

Félagar Íhaldsflokksins hafa keppst við að minnast Lawsons í dag. Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, segir til að mynda að það fyrsta sem hann gerði þegar hann tók við embætti fjármálaráðherra á sínum tíma hafi verið að hengja ljósmynd af Lawson upp á skrifstofu sinni.

„Hann olli umbreytingum í starfi sem fjármálaráðherra og veitti mér og mörgum öðrum innblástur. Hugur minn er hjá fjölskyldu hans og vinum,“ segir hann.

Þá segir Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, að Lawson hafi verið óttalaus kyndilberi íhaldsstefnu með áherslu á hinn frjálsa markað.

Liz Truss, fyrrverandi forsætisráðherra til 49 daga, segir Lawson hafa verið sannkallaðan risa í stjórnmálum níunda áratugarins sem hafi haft það að markmiði að fella niður minnst eina skattskyldu með hverjum fjárlögum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×