Erlent

Tyrkland leggur blessun sína yfir umsókn Finnlands

Máni Snær Þorláksson skrifar
Forsætisráðherra Finnlands ræðir við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO.
Forsætisráðherra Finnlands ræðir við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO. Getty/Johannes Simon

Finnland og Svíþjóð óskuðu eftir því að ganga inn í Atlantshafsbandalagið, NATO, á síðasta ári í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Umsóknin hefur strandað á Tyrklandi en nú hefur tyrkneska þingið samþykkt umsóknina. Öll aðildarríki bandalagsins hafa því nú samþykkt inngöngu Finnlands.

Tyrkland var síðasta aðildarríkið af þrjátíu til að samþykkja umsókn Finnlands. Ungverjaland var einnig lengi að samþykkja umsóknina en gerði það svo fyrr í þessari viku. Tyrkland samþykkti þó ekki umsókn Svíþjóðar sem þarf því að bíða lengur.

Innganga Finnlands í Atlantshafsbandalagið mun vera sú fyrsta síðan Norður-Makedónía gekk inn í bandalagið árið 2020. 

Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, birtir í kvöld færslu á samfélagsmiðlinum Twitter þar sem hún þakkar öllum löndum Atlantshafsbandalagsins fyrir stuðninginn.

„Sem bandamenn munum við gefa og þiggja öryggi. Við munum verja hvort annað,“ segir hún í færslunni.

Þá segir Sanna að Finnland standi með Svíþjóð núna og í framtíðinni og styðji umsókn þeirra í bandalagið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×