Enski boltinn

Luis Enrique vill komast í ensku úrvalsdeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Luis Enrique horfir til Emglands og gæti fengið næsta spennandi starf sem losnar.
 Luis Enrique horfir til Emglands og gæti fengið næsta spennandi starf sem losnar. Getty/Denis Doyle

Fyrrum þjálfari Barcelona og spænska landsliðsins rennir hýru auga til ensku úrvalsdeildarinnar nú þegar hann leitar sér að nýju framtíðarstarfi.

Luis Enrique segir að hann vilji stýra liði í ensku úrvalsdeildinni en staðfesti jafnframt að hann hafi ekki enn fengið neitt tilboð um slíkt.

Enrique hefur verið atvinnulaus síðan að hann hætti með spænska landsliðið eftir HM í Katar.

Hann hefur verið orðaður við stjórastól Tottenham eftir að Antonio Conte hætti störfum í vikunni. Annað nafn sem hefur verið nefnt þar er Julian Nagelsmann, fyrrum knattspyrnustjóri Bayern München.

„Ég fylgist ofar öllu með ensku úrvalsdeildinni því ég vill komast í vinnu í Englandi,“ sagði Luis Enrique í útvarpsviðtali á Cadena Ser radio.

„Ég væri til í að fara í hvaða lið sem er en samt bara til liðs sem getur gert mikilvæga hluti sem auðvitað fækkar mögulegum félögum. Ég bind ekki allt of miklar vonir því það eru margir kandídatar,“ sagði Enrique.

Hinn 52 ára gamli Spánverji segir að það sé engin ástæða til að flýta sér aftur til baka í fótboltann. Hann neitaði jafnframt þeim sögusögnum um að honum hafi verið boðið brasilíska landsliðsþjálfarastarfið.

„Ég er heppin af því að ég nýt einkalífsins. Það að þetta taki lengri tíma, það að engin tilboð komi, það er bara þannig. Ég vil komast til liðs sem á möguleika að gera eitthvað. Það þýðir ekki að ég vil ekki vinna á Spáni,“ sagði Enrique.

„Það eru nokkur landslið að leita sér að þjálfara. Ég held samt ekki að ég hafi rétta prófílinn til að taka við landsliði eins og Brasilíu. Engin frá Brasilíu hefur haft samband. Ég hef fengið tilboð um að taka við landsliðum en aftur á móti engin tilboð um að taka við félagi,“ sagði Enrique.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×