Íslenski boltinn

Elskar Ís­land og karakter Ís­lendinga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Miloš Milojević bjó lengi vel á Íslandi og þjálfaði tvö lið í efstu deild.
Miloš Milojević bjó lengi vel á Íslandi og þjálfaði tvö lið í efstu deild. Getty Images/Milos Vujinovic

Miloš Milojević þjálfaði á sínum tíma Víking og Breiðablik hér á landi en er í dag þjálfari Rauðu Stjörnunnar í heimalandi sínu Serbíu. Hann segist ánægður með að menn muni enn eftir sér hér á landi og segist elska bæði Ísland og karakterinn sem Íslendingar búa yfir.

Hinn fertugi Miloš var til tals í hlaðvarpi á Fótbolti.net. Þar fór hann yfir víðan völl og meðal annars ástríðu sína á Íslandi. Hann ræddi þá ást einnig síðasta sumar þegar Malmö, þáverandi lið hans, mætti fyrrum lærisveinum hans í Víking í undankeppni Meistaradeildar Evrópu.

Miloš kom fyrst hingað til lands árið 2006 og spilaði með Hamri í Hveragerði sama sumar í 3. deildinni. Hann færði sig um set á Suðurlandi og spilaði með Ægi árin 2007 og 2008 áður en hann færði sig aftur til Hamars 2009 en þá lék liðið í 2. deild.

Ári síðar var Miloš mættur til Víkings þar sem hann spilaði með liðinu í 1. og efstu deild á næstu árum ásamt því að þjálfa yngri flokka félagsins.

„Ég elska Ísland og þann karakter sem Íslendingar hafa. Ég lærði mikið á Íslandi. Ég er stoltur af því að vera bæði íslenskur og serbneskur ríkisborgari,“ sagði hinn fertugi þjálfari og bætti við að Víkingar vildu endilega gefa sér frímiða á leiki þeirra í sumar, ef svo vildi til að hann yrði á landinu.

„Ég er mjög ánægður að þeir séu ekki búnir að gleyma mér,“ bætti Miloš við.

Hann stýrir nú uppeldisfélagi sínu Rauðu stjörnunni og er á góðri leið með að landa serbneska meistaratitlinum. Liðið er með 18 stiga forystu á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×