Innlent

Flestar greiningar in­flúensu frá ára­mótum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Landlæknisembættið segir fulla ástæðu til að minna fólk á að sinna almennum sóttvörnum.
Landlæknisembættið segir fulla ástæðu til að minna fólk á að sinna almennum sóttvörnum. Getty

Vikuna 13. til 19. mars greindust fleiri inflúensutilfelli en nokkra aðra viku frá áramótum. Alls greindust 56 með inflúensu, þar af 47 með inflúensustofn B, fimm með inflúensustofn A(H3) og fjórir með stofn A(H1).

Þetta kemur fram í nýrri samantekt á vef Landlæknisembættisins.

Þar segir að staðfest inflúensa hafi verið tæpur helmingur greindra öndunarfærasýkinga í viku 11. Átta lögðust inn á Landspítala vegna inflúensu í vikunni en aðeins einn lagðist inn í viku 10.  Meirihlutinn var 65 ára og eldri.

Breyting virðist hafa orðið á aldursdreifingu samhliða breytingum á stofngerð. Fram yfir áramót, þegar stofn A(H1N1) var ríkjandi, var meirihluti tilfella ungt fólk og eldri einstaklingar og meðal barna voru það helst ung börn sem greindust. 

„Eftir áramót þegar inflúensa af stofni B tekur við breytist aldursdreifing á þann veg að um og yfir helmingur inflúensugreininga er hjá börnum og unglingum, en inflúensa B leggst helst á ungmenni,“ segir í samantektinni.

Algengt sé að faraldur vegna inflúensu B komi fram sem langdreginn stallur fremur en afmarkaður toppur á eftir inflúensu A toppi. Í ár virðast koma fram aðskildir toppar inflúensu A og inflúensu B.

„Vikulegur fjöldi greininga á staðfestri inflúensu hefur ekki verið meiri frá áramótum. Meirihluti greininga nú er af inflúensustofni B eins og verið hefur undanfarnar vikur. Í þessari seinni inflúensubylgju vetrarins greinast hlutfallslega fleiri í aldurshópnum 5-14 ára samanborið við inflúensutoppinn fyrr í vetur. Þá greinast nú færri eldri einstaklingar með staðfesta inflúensu en fyrir og um áramótin,“ segir í samantektinni.

Alls greindust 35 með Covid-19 í viku 11, sem er sambærilegt við viku 10. Þá var fjöldi greininga skarlatssóttar einnig svipaður. Hálsbólga virðist vera á undanhaldi og færri greindust með Rhinoveiru.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×