Íslenski boltinn

Albert hættur: Eftir síðasta bak­slag er nokkuð ljóst að fót­boltinn er búinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Brynjar Ingason hefur skorað flest mörk í efstu deild af öllum leikmönnum Fylkis.
Albert Brynjar Ingason hefur skorað flest mörk í efstu deild af öllum leikmönnum Fylkis. Vísir/Bára

Albert Brynjar Ingason hefur spilað sinn síðasta leik á ferlinum en hann tilkynnti í dag að hann væri hættur í fótbolta.

Albert Brynjar er 37 ára gamall og hefur skoraði 69 mörk í efstu deild sem skilar honum í tuttugasta sæti yfir markahæstu leikmenn í sögu deildarinnar.

Albert meiddist illa á hné sumarið 2021 og náði ekki að spila með Fylki síðasta sumar. Hann var leikmaður Kórdrengja þegar hann meiddist.

„Eftir síðasta bakslag er nokkuð ljóst að fótboltinn er búinn,“ skrifaði Albert í stuttum pistli sínum á fésbókinni.

„Maður hefur upplifað margt á þessum ferli, Evrópukeppnir, Íslandsmeistaratitil, að falla, komast upp nokkrum sinnum. Í heildina algjör veisla!,“ skrifaði Albert sem alls hefur skorað 108 mörk í deildarkeppnum á Íslandi.

Hann segir að það hefði verið draumurinn að ná að kveðja inn á vellinum með Fylki síðasta sumar og hann hafi verið „grátlega nálægt því“ eins og hann orðar það.

Albert er markhæsti leikmaðurinn í sögu Fylkis í efstu deild með 56 mörk í 167 leikjum en hann hefur einnig skorað 9 mörk fyrir FH og 4 mörk fyrir Val í efstu deild.

„Ég er heppinn hvað ég fékk mörg ár í þessari íþrótt sem ég elska svo mikið,“ skrifaði Albert að lokum og þakkaði fyrir sig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.