Enski boltinn

Ástæðan fyrir því að Arsenal tekur risaklukku með sér í útileiki

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal-menn með klukkuna góðu.
Arsenal-menn með klukkuna góðu.

Eftir 0-3 sigurinn á Fulham í ensku úrvalsdeildinni um helgina birtust myndir á samfélagsmiðlum af leikmönnum og starfsliði Arsenal með risastóra klukku í búningsklefanum. En af hverju voru Arsenal-menn með þessa risaklukku?

Klukkan er eftirlíking af klukku sem er á Emirates en var áður á Highbury, gamla heimavelli Arsenal, í um sjötíu ár.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að klukkan góða sé liður í því að skapa heimilislega stemmningu í búningsklefa Arsenal á útivelli, svo leikmönnum finnist eins og þeir séu á Emirates.

Ekki nóg með að Arsenal-menn hafi komið með klukkuna í leikinn á Craven Cottage heldur var búið að hengja upp myndir af merki Arsenal og af leikmönnum liðsins í búningsklefanum.

Þetta virðist virka því Arsenal hefur átt mjög góðu gengi að fagna á útivöllum í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Skytturnar hafa unnið ellefu af fjórtán útileikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×