Enski boltinn

Fram­kvæmda­stjóri BBC biður á­horf­endur af­sökunar eftir erfiðan dag

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gary Lineker hefur verið í eldlínunni undanfarna daga.
Gary Lineker hefur verið í eldlínunni undanfarna daga. Vísir/Getty

Framkvæmdastjóri BBC hefur beðið áhorfendur á Bretlandseyjum afsökunar eftir að mikil truflun varð á dagskrárliðum tengdum knattspyrnu í dag vegna ákvörðun stöðvarinnar að taka sjónvarspmanninn Gary Lineker af skjánum fyrir helgina.

Eins og fram hefur komið í fréttum var Gary Lineker, sem hefur verið andlit BBC í umfjöllun stöðvarinnar um ensku úrvalsdeildina, kippt af skjánum fyrir helgina eftir að hann gagnrýndi ríkisstjórn Breta í málefnum flóttamanna.

Gagnrýni Lineker stríðir gegn reglum BBC og var hann því settur í tímabundið leyfi. Ákvörðun BBC vakti mikla reiði og margir af samstarfsmönnum Lineker neituðu að taka þátt í útsendingum helgarinnar.

Þátturinn Match of the day, sem Lineker stýrir, er á dagskrá á laugardagskvöldum en þar er farið yfir leiki dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Vegna fjarveru ýmissa sérfræðinga auk Linekers var þáttur kvöldsins styttur niður í tuttugu mínútur þar sem atvik úr leikjum dagsins verða sýnd án umfjöllunar.

Aðrir þættir þar sem fjallað er um leiki á Englandi voru hins vegar einnig styttir eða hreinlega teknir af dagskrá. Stjórnandi Football Focus, Alex Scott, ákvað einum og hálfum tíma fyrir útsendingu að hún vildi ekki taka þátt og sagði að „henni liði ekki vel með að halda þættinum á dagskrá“ í ljósi alls sem gerst hefði.

Þá var þætti á Radio 5 útvarpsstöðinni einnig tekinn af dagskrá þar sem starfsfólk vantaði.

Framkvæmdastjóri BBC hefur nú beðið áhorfendur afsökunar á atburðum dagsins og viðurkenndi að dagurinn hefði verið erfiður. Hann sagði að hann ætlaði ekki að segja af sér og bætti við að hann væri tilbúinn að endurskoða reglur stöðvarinnar fyrir starfsmenn í verktakavinnu líkt og Lineker. 

„Góður árangur fyri mig væri að fá Gary Lineker aftur á skjáinn,“ sagði Tim Davie framkvæmdastjóri BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×