Enski boltinn

Conte svarar Richarli­s­on

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Antonio Conte virðist túlka viðtal Richarlison öðruvísi en fjölmiðlar erlendis.
Antonio Conte virðist túlka viðtal Richarlison öðruvísi en fjölmiðlar erlendis. Clive Rose/Getty Images

Antonio Conte, þjálfari Tottenham Hotspur, lét orð Richarlison sem vind um eyru þjóta er hann ræddi við blaðamenn fyrir leik helgarinnar.

Richarlison fór í heldur betur dramatískt viðtal að loknu markalausu jafntefli Tottenham Hotspur og AC Milan í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Jafnteflið þýddi að Tottenham var úr leik.

Brasilíumaðurinn sagði að upplegg Conte væri ömurlegt og að hann væri ekki að spila nægilega mikið. Hann gekk svo langt að segja að tímabilið í heild væri í raun algjör hörmung. Conte var spurður út í þetta á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Nottingham Forest.

„Ég horfði á viðtalið við Richarlison. Hann gagnrýndi ekki mig persónulega, hann sagði að tímabilið sitt væri ömurlegt [e. shit] og það er rétt hjá honum. Tímabilið hans hefur ekki verið gott, af því hann hefur verið mikið meiddur. Hann byrjaði vel með okkur, meiddist í Meistaradeild Evrópu, fór á HM þar sem Brasilíu mistókst að vinna og meiddist aftur, alvarlega.“

„Hann hefur ekki enn skorað í deildinni, aðeins tvö mörk í Meistaradeildinni. Ég held að hann hafi verið mjög hreinskilinn, að viðurkenna að tímabilið hans hafi ekki verið gott. Tímabilinu okkar er ekki lokið og hann hefur tíma til að jafna sig.“

„Ef hann á skilið að spila þá gef ég honum tækifæri til þess. Annars munum við spila öðrum leikmanni,“ sagði Conte að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×