Erlent

Glæpa­gengi biðst af­sökunar á morðum og mann­ráni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Málið hefur valdið nokkurri spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Mexíkó.
Málið hefur valdið nokkurri spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Mexíkó. Getty/Hector Vivas

Erlendir miðlar hafa greint frá því að hópur sem klauf sig úr mexíkóska Flóa-fíkniefnahringnum og kallar sig Sporðdrekagengið hafi beðist afsökunar á því að hafa rænt fjórum Bandaríkjamönnum í síðustu viku og myrt tvo þeirra.

Þá hefur hópurinn afhent lögreglu fimm meðlimi hópsins sem eru sagðir hafa borið ábyrgð á morðunum.

Dagblöð í Mexíkó hafa birt myndir af mönnunum fimm, þar sem þeir liggja á maganum, með bundnar hendur og stuttermabol yfir höfðinu. Myndirnar eru sagðar hafa verið teknar þegar lögregla koma að mönnunum.

Fregnir herma að hjá þeim hafi fundist bréf frá Sporðdrekagenginu þar sem íbúar landamærabæjarins Matamoros, fórnarlömbin og fjölskyldur þeirra eru beðin afsökunar. Í bréfinu segir að mennirnir hafi framið mannránið og morðin á eigin vegum og brotið gegn reglum gengisins um að „vernda líf saklausra“.

Fjórmenningarnir virðast hafa verið fluttir á heilbrigðisstofnun í Matamoros af meðlimum gengisins en tveir létust skömmu síðar. Lík þeirra voru flutt aftur til Bandaríkjanna í gær.

Fréttum ber ekki saman um ferð Bandaríkjamannanna til Mexíkó en upphaflega var greint frá því að um væri að ræða þrjá vini sem höfuð verið að fylgja fjórða í efnaskiptaaðgerð. Nú hefur hins vegar komið í ljós að þrír af fjórum höfðu dóma á bakinu vegna fíkniefnatengdra brota.

Reuters segir að verið sé að rannsaka hvort Bandaríkjamennirnir voru teknir vegna misskilnings; að meðlimir Sporðdrekagengisins hafi haldið að um væri að ræða samkeppnisaðila sem væri að reyna að sölsa undir sig yfirráðasvæði þess.

Málið hefur valdið nokkrum titringi í samskiptum Bandaríkjanna og Mexíkó og nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa kallað eftir því að stjórnvöld beiti hervaldi gegn mexíkóskum fíknefnagengjum. Þau köll hafa vakið hörð viðbrögð handan landamæranna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×