Enski boltinn

Wild­er verður níundi þjálfari Wat­ford síðan haustið 2019

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Chris Wilder er nýr þjálfari Watford.
Chris Wilder er nýr þjálfari Watford. Dave Thompson/Getty Images

Það verður seint sagt að mikið starfsöryggi fylgi því að þjálfa enska knattspyrnufélagið Watford. Slaven Bilić hefur verið rekinn og mun Chris Wilder taka við þjálfun liðsins. Hann verður 9. þjálfari Watford síðan Javi Gracia var rekinn í september 2019.

Bilić tók við stjórnartaumunum hjá Watford í september þegar Pozzo-fjölskyldan, eigendur liðsins, ákváðu að reka Rob Edwards. Sem stendur situr liðið í 9. sæti ensku B-deildarinnar, fjórum stigum frá sæti í umspilinu sem getur gefið sæti í ensku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir að mikil meiðsli herji á leikmannahóp Watford og enn séu 33 stig í pottinum þá ákvað Pozzo-fjölskyldan að nú væri nóg komið og lét Bilić taka poka sinn.

Chris Wilder, sem kom Sheffield United alla leið upp í ensku úrvalsdeildina eftir að hafa tekið við liðinu í C-deildinni, mun taka við af Bilić. Hann verður 9. þjálfari Watford síðan í september 2019 og sá 18. síðan Pozzo-fjölskyldan keypti félagið 2012.

Hversu lengi Wilder endist í stjórastól Watford mun koma í ljós en það er eflaust ekki hár stuðull að hann verði enn þjálfari liðsins þegar tímablið 2023-24 hefst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×