Erlent

Nýjar upp­lýsingar varpa ljósi á or­sök lestar­slyssins

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Þykkan svartan reyk lagði frá brunanum sem gnæfði yfir þegar yfirvöld brenndu eiturefnin.
Þykkan svartan reyk lagði frá brunanum sem gnæfði yfir þegar yfirvöld brenndu eiturefnin. AP/Gene J. Puskar

Hjólalega lestar sem fór út af sporinu í Ohio í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum er talin hafa ofhitnað. Starfsmenn um borð fengu viðvörun um mögulega ofhitnun og reyndu að hægja á lestinni sem að lokum fór út af sporinu.

Um fimmtíu vagnar flutningalestar Norfolk Southern-lestarfélagsins fóru út af sporinu við bæinn Austur-Palestínu í Ohio við ríkjamörkin að Pennsylvaníu 3. febrúar síðastliðinn. Engan sakaði en ýmis konar eiturefni sluppu út í umhverfið við slysið. 

Nokkrir vagnanna innihéldu eiturefnið vinýlklóríð sem hefur verið tengt við aukna hættu á nokkrum tegundum krabbameins í fólki. Þegar yfirvöld óttuðust að öflug sprenging gæti orðið í þeim var ákveðið að brenna efnin og íbúum skipað að yfirgefa heimili sín.

Samgönguöryggisstofnun Bandaríkjanna segir að hjólalega hafi verið orðin óeðlilega heit nokkrum kílómetrum áður en lestin fór loks út af sporinu. Þegar slysið varð var hiti legunnar um 253 gráðum yfir lofthita, að því er fram kemur hjá Washington Post.

Stofnunin slær því þó ekki föstu að ofhitnun legunnar hafi verið meginorsök slyssins. Verkfræðingur um borð reyndi að stöðva lestina þegar viðvörunarbjöllur fóru í gang, örskömmu fyrir slysið. Lestin er talin hafa verið á um 75 kílómetra hraða þegar hún fór út af sporinu eða um fimm kílómetra hraða undir hámarkshraða. Málið er enn í rannsókn.


Tengdar fréttir

Óttuðust að mæta á fund með íbúum eftir eiturefnaslys

Forsvarsmenn lestarfyrirtækis sem átti lest sem fór af sporunum í Ohio fyrr í þessum mánuði mættu ekki á opinn fund sem haldinn var um málið í gær. Vísuðu þeir til öryggisástæðna fyrir því að þeir mættu ekki á fundinn. Mikið magn eiturefna sluppu út í andrúmsloftið þegar lestin fór af sporinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×