Íslenski boltinn

Vanda og Klara sam­tals með tæp­lega 37 milljónir í árs­laun

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir og Klara Bjartmarz, formaður og framkvæmdastjóri KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir og Klara Bjartmarz, formaður og framkvæmdastjóri KSÍ. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Vanda Sigurgeirsdóttir og Klara Bjartmarz, formaður og framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Íslands, voru samtals með tæplega 37 milljónir króna í laun árið 2022. Þetta kemur fram í árskýrslu sambandsins.

Á föstudaginn var birti KSÍ ársskýrslu fyrir árið 2022. Í ársskýrslunni er stiklað á stóru um árið sem leið í máli og myndum og fjallað um mótahald, landslið, fræðslumál, samfélagsmál, fjármál og ýmislegt annað.

Þar kom fram að sambandið hefði hagnast um 157 milljónir króna á árinu 2022. Þar kom einnig fram að formaður og framkvæmdastjóri sambandsins væru samtals með 37 milljónir króna í árslaun.

Í skýrslunni segir: „Laun og bifreiðastyrkur til formanns námu um 19,5 milljónir króna og til framkvæmdastjóra um 17,2 milljónir króna.“

Er þetta rúmlega tveimur milljónum minna en sambandið eyddi í sömu kostnaðarliði á síðasta ári. 

„Laun og bifreiðastyrkur til núverandi formanns námu um 4,4 milljónum króna, til framkvæmdastjóra um 16,2 milljónum króna og laun og launauppgjör við fyrrverandi formann um 18,6 milljónir króna,“ segir í ársskýrslu sambandsins fyrir árið 2021.

Launagjöld á skrifstofu sambandsins hækkuðu nokkuð milli ára. Voru þau nú rúmar 256 milljónir miðað við 230 milljónir árið 2021. Skýrist það að mörgu leyti af lögbundnum launahækkunum og þar sem ákveðið var að greiða starfstólki bónus vegna álags tengdu Evrópumótinu.

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×