Íslenski boltinn

Meistararnir fá Oliver

Sindri Sverrisson skrifar
Oliver Stefánsson lék með ÍA í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.
Oliver Stefánsson lék með ÍA í Bestu deildinni á síðustu leiktíð. vísir/Diego

Íslandmeistarar Breiðabliks í fótbolta hafa fengið til sín Skagamanninn Oliver Stefánsson frá Norrköping í Svíþjóð. Hann skrifaði undir samning við Blika sem gildir næstu þrjár leiktíðir eða út árið 2025.

Oliver er tvítugur varnar- og miðjumaður sem lék fyrir uppeldisfélag sitt ÍA í Bestu deildinni á síðustu leiktíð. Hann var þar að láni frá sænska félaginu Norrköping.

Oliver er sonur knattspyrnukempnanna Magneu Guðlaugsdóttur og Stefáns Þórðarsonar en Stefán gerði einmitt garðinn frægan með Norrköping. Hann fór fyrst til Norrköping árið 2018, þá 16 ára gamall.

Oliver náði að leika einn bikarleik með aðalliði Norrköping en hann greindist með blóðtappa í öxl á tíma sínum í Svíþjóð og var lengi frá keppni af þeim sökum.

Oliver lék 23 leiki með ÍA í Bestu deildinni á síðustu leiktíð, þar af 19 í byrjunarliði, og skoraði eitt mark. Skagamenn féllu hins vegar niður um deild.

Áður höfðu Blikar fengið annan leikmann sem spilaði með ÍA í fyrra, sóknarmanninn Eyþór Aron Wöhler. Þeir hafa einnig fengið til sín Alex Frey Elísson frá Fram, Arnór Svein Aðalsteinsson frá KR, Ágúst Eðvald Hlynsson frá Horsens, Klæmint Olsen að láni frá NSÍ Runavík og Patrik Johannesen frá Keflavík, auk þess að endurheimta Stefán Inga Sigurðarson úr láni hjá HK og Ágúst Orra Þorsteinsson frá Malmö.

Blikar hafa aftur á móti misst menn á borð við Dag Dan Þórhallsson, Ísak Snæ Þorvaldsson, Elfar Frey Helgason, Adam Örn Arnarson og fleiri.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×