Erlent

Sturgeon segir af sér

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sturgeon mun að öllum líkindum segja af sér klukkan 11 í dag.
Sturgeon mun að öllum líkindum segja af sér klukkan 11 í dag. Getty/Pool

Nicola Sturgeon hyggst segja af sér sem fyrsti ráðherra Skotlands. Hún hefur gegnt embættinu síðan árið 2014 en enginn hefur verið ráðherra landsins svo lengi. 

Sturgeon hélt blaðamannafund í dag þar sem hún greindi frá þessu. 

Hún verður enn ráðherra þar til að eftirmaður hennar verður kjörinn. Hún sagði afsögn sína ekki mega tengja við gagnrýni sem hún hefur sætt síðustu daga heldur sé þetta ákvörðun tengd eldra og lengra mati hennar á stöðu sinni sem ráðherra. 

„Skotland er sanngjarnara land en það var árið 2015. Það er margt sem ég er stolt af en það er alltaf svo mikið meira sem hægt er að gera,“ sagði Sturgeon á blaðamannafundinum. 

Síðustu daga hefur fjöldi fólks kallað að hún segði af sér vegna frumvarps um kynvitund. Frumvarpið var samþykkt á skoska þinginu en ekki því breska. Þrjátíu þúsund manns sögðu sig úr Skoska þjóðarflokknum, flokk Sturgeon, eftir að hún lagði frumvarpið fram.

Með frumvarpi hennar getur trans fólk fengið vottorð um kynleiðréttingu án þess að hafa farið í læknisskoðun. Þá hefur aldurstakmarkið til að geta farið í kynleiðréttingu verið lækkað í sextán ár.

Þingmenn Verkamannaflokksins greiddu atkvæði með frumvarpinu á breska þinginu, fyrir utan tvo þingmenn sem sögðu sig úr flokknum og greiddu atkvæði gegn því. Íhaldsflokkurinn greiddi hins vegar atkvæði gegn því.

Í lok janúar var greint frá því að trans kona, sem hafði verið dæmd fyrir að nauðga tveimur konum áður en hún fór í gegnum kynleiðréttingarferli, væri vistuð í kvennafangelsi. Þremur sólarhringum eftir að hún var vistuð þar var hún flutt í fangelsi fyrir karlmenn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×