Innlent

Íslenska hvalkjötið komið í höfn í Japan

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skipið Silver Copenhagen kom til hafnar norðaustan við borgina Fukuoka, milli Nagasaki og Hiroshima, samkvæmt siglingasíðunni Marine Traffic.
Skipið Silver Copenhagen kom til hafnar norðaustan við borgina Fukuoka, milli Nagasaki og Hiroshima, samkvæmt siglingasíðunni Marine Traffic. Marine Traffic

Norska flutningaskipið Silver Copenhagen kom til hafnar í Japan í morgun eftir sjö vikna siglingu frá Íslandi. Farmurinn var 2.576 tonn af frystum hvalaafurðum.

Þetta er fyrsta hvalkjötið sem flutt er út frá Íslandi í fjögur ár. Þetta er jafnframt mesta magn hvalaafurða sem flutt hefur verið út í 35 ár.

Á siglingasíðunni Marine Traffic má sjá að skipið lagðist að bryggju í borginni Shimonoseki undir hádegi á japönskum tíma. Þá var nótt að íslenskum tíma, en tímamismunur milli landanna er níu klukkustundir.

Sjá má hvar skipið lagðist að bryggju í borginni Shimonoseki.Marine Traffic

Þessi 49 daga sigling með kjötið hófst í Hafnarfirði þann 21. desember. Siglingaleiðin lá suður Atlantshaf, suður fyrir syðsta odda Afríku og þvert yfir Indlandshaf. Áð var í Singapore í hálfan sólarhring fyrir lokaáfangann til Japans.

Skipið virðist þó ekki hafa lagst að bryggju í Singapore heldur lá þar á ytri höfninni, miðað við siglingaferil þess. Ætla má að tækifærið hafi verið nýtt til áhafnaskipta og töku vista.

Frystiskipið Silver Copenhagen. Sigling þess frá Íslandi til Japans tók 49 sólarhringa.Fjord Shipping

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, hefur ekkert tjáð sig opinberlega um útflutninginn núna og ekki svarað óskum fréttastofu um viðtal. Af ferli skipsins að dæma virðist útflutningurinn hafa gengið áfallalaust og engar fregnir hafa borist af því að reynt hafi verið að hindra för skipsins.

Útflutningsverðmæti hvalkjötsins, fob-verð, nemur 2.771 milljón króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar, að því er fram kom í frétt Stöðvar 2 í fyrradag:


Tengdar fréttir

Hvalkjöt fyrir 2,8 milljarða króna til kaupenda í Japan

Um 2.600 tonn af íslensku hvalkjöti eru væntanleg með skipi til Japans um miðja þessa viku og er þetta mesta magn hvalaafurða sem flutt hefur verið út frá Íslandi í 35 ár. Útflutningsverðmætið nemur um 2,8 milljörðum króna, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Hvalverndarsamtök fylgjast með siglingu þessa skips

Alþjóðlegu hvalverndarsamtökin Whale and Dolphin Conservation fylgjast núna af áhuga með siglingu norska skipsins Silver Copenhagen yfir Indlandshaf. Þau telja nokkuð víst að farmur þess sé íslenskt hvalkjöt á leið til Japans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×