Erlent

Pútín sagðist geta skotið eld­flaug á Bret­land á innan við mínútu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í kjölfar innrásar Rússa varð Johnson fljótt einn af dyggustu stuðningsmönnum Úkraínu. Hann heimsótti Úkraínuforseta fyrir rúmri viku síðan.
Í kjölfar innrásar Rússa varð Johnson fljótt einn af dyggustu stuðningsmönnum Úkraínu. Hann heimsótti Úkraínuforseta fyrir rúmri viku síðan. AP/Forsetaskrifstofa Úkraínu

Að sögn Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagðist Vladimir Pútín Rússlandsforseti geta skotið eldflaug í átt að Bretlandi „á innan við mínútu“ í símtali sem átti sér stað skömmu áður en Rússar réðust inn í Úkraínu.

Þetta kemur fram í heimildarþáttaröð BBC um átökin í Úkraínu og aðdraganda innrásarinnar.

Johnson sagði í samtali við þáttagerðarmenn að hann hefði ekki túlkað orð Pútín sem hótun en þau voru látin falla í samtali um aukinn stuðning við Atlantshafsbandalagsins ef Rússar réðust inn í Úkraínu.

„Hann eiginlega ógnaði mér og sagði: Boris, ég vill ekki meiða þig en með eldflaug, þá tæki það bara mínútu. Eða eitthvað svoleiðis,“ sagði Johnson við BBC. Sagði hann tón Pútín hafa verið afslappaðan og því hefði hann metið forsetans sem svo að hann væri bara að „spila með“.

Á þessum punkti í samtalinu var Johson að reyna að fá Pútín að samningaborðinu.

Forsætisráðherrann sagðist hafa varað Pútín við því að ef hann réðist inn í Úkraínu myndu Vesturlönd herða refsiaðgerðir sínar og stuðningur við Nató aukast. Pútín hefði spurt að því hvað það þýddi að Úkraína væri ekki á leið inn í bandalagið „í náinni framtíð“ og Johnson svarað að forsetinn vissi full vel hvað það þýddi.

Meðal annarra viðmælenda í þáttunum er Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sem segir meðal annars frá fundi sínum með Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, í febrúar síðastliðnum.

„Ég man að sagði við Shoigu: Þeir munu berjast. Og hann sagði: Móðir mín er úkraínsk. Þeir munu ekki berjast! Hann sagði líka að þeir hefðu ekki í hyggju að ráðast inn í landið.“

Segir hann þá báða hafa vitað að Shoigu var að ljúga.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×