Erlent

Biðja sænska ríkis­­borgara að gæta sín

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Mótmælt hefur verið fyrir framan sænsku ræðismannsskrifstofuna í Istanbúl.
Mótmælt hefur verið fyrir framan sænsku ræðismannsskrifstofuna í Istanbúl. EPA-EFE/SEDAT SUNA

Sænsk yfirvöld biðja ríkisborgara sína að forðast mannmergð í Tyrklandi. Kveikt var í Kóraninum á mótmælafundi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi í vikunni og sögðu tyrknesk stjórnvöld að Svíar ættu ekki að gera ráð fyrir stuðningi þeirra vegna umsóknar að NATO.

„Svíar í Tyrklandi eru beðnir um að fylgjast vel með viðvörunum og framgangi mála. Áframhaldandi mótmæli gætu átt sér stað fyrir utan sendiráðið í Ankara og á ræðismannsskrifstofunni í Istanbúl næstu daga. Ríkisborgarar eru beðnir um að forðast mannmergð og mótmæli,“ segir í viðvörun frá sænska utanríkisráðuneytinu.

Sambærileg skilaboð hafa borist frá utanríkisráðuneytum Danmerkur og Noregs.

Aðdraganda málsins má rekja til þess að kveikt var í eintaki af Kóraninum á mótmælafundi í Stokkhólmi fyrir viku síðan. Mótmæli hafa víða brotist út í kjölfarið.

Sænsk stjórnvöld sóttu um aðild að NATO ásamt Finnum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins þurfa að leggja blessun sína yfir umsóknir nýrra ríkja.

„Svíþjóð ætti ekki að reikna með stuðningi frá okkur vegna NATO,“ sagði Erdogan, aðspurður um málið. „Það er ljóst að þeir sem stóðu fyrir slíkri svívirðingu fyrir framan sendiráð okkar geta ekki reiknað með neinni velvild varðandi umsóknina.“

Rasmus Paludan segist ætla að brenna Kóraninn í hverri viku þar til Svíþjóð fær aðild að Atlantshafsbandalaginu.EPA-EFE/Olafur Steinar Gestsson

Sænsk yfirvöld höfðu gefið grænt ljós á mótmælafundinn sem haldinn var fyrir framan tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi á laugardag. Það var Rasmus Paludan, formaður danska hægriöfgaflokksins Stram Kurs, sem stóð fyrir því að kveikt var í eintaki af Kóraninum á fundinum. Paludan hefur sagst ætla að kveikja í Kóraninum í hverri viku þar til Svíum verði hleypt inn í Atlantshafsbandalagið.

Tobias Billström utanríkisráðherra hefur gagnrýnt mótmælin, en bendir á að tjáningarfrelsi sé við lýði í Svíþjóð. Það þýði þó ekki að sænsk stjórnvöld eða ráðherrann sjálfur styðji þær skoðanir sem hafi verið viðraðar á fundinum. Ulf Kristersson forsætisráðherra tekur í sama streng og ver tjáningarfrelsið. Hann segir athæfið þó mjög ruddalegt. Deutsche Welle greinir frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×