Erlent

Svíar geti ekki reiknað með stuðningi Tyrkja vegna NATO-um­sóknar

Atli Ísleifsson skrifar
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur verið harður í afstöðu sinni vegna NATO-aðildar Svía. Þing- og forsetakosningar fara fram í Tyrklandi í maí næstkomandi.
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur verið harður í afstöðu sinni vegna NATO-aðildar Svía. Þing- og forsetakosningar fara fram í Tyrklandi í maí næstkomandi. EPA

Sænsk stjórnvöld ættu ekki að gera ráð fyrir stuðningi tyrkneskra stjórnvalda vegna umsóknar þeirra að NATO. Þetta sagði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti í gær, fáeinum dögum eftir að kveikt var í eintaki af Kóraninum á mótmælafundi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi.

Sænsk stjórnvöld sóttu, auk Finna, um aðild að NATO í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Tyrkland er eitt aðildarríkja NATO, en öll aðildarríki þurfa að leggja blessun sína yfir umsóknir nýrra ríkja.

Tyrkir hafa farið fram á að Svíar framselji fjölda Kúrda sem tyrknesk yfirvöld skilgreina sem hryðjuverkamenn til að þeir geri grænt ljós á umsókn Svía. Þá hafa tvö önnur nýleg mál farið sérstaklega fyrir brjóstið á Tyrkjum – annars vegar að hópur Kúrda hafi hengt eftirmynd af Erdogan á mótmælafundi í Svíþjóð fyrr í mánuðinum og svo að kveikt hafi verið í Kóraninum á fundi á dögunum.

„Svíþjóð ætti ekki að reikna með stuðningi frá okkur vegna NATO,“ sagði Erdogan, aðspurður um málið. „Það er ljóst að þeir sem stóðu fyrir slíkri svívirðingu fyrir framan sendiráð okkar geta ekki reiknað með neinni velvild varðandi umsóknina.“

Sænsk yfirvöld höfðu gefið grænt ljós á mótmælafundinn sem haldinn var fyrir framan tyrkneska sendiráðið í Stokkhólmi á laugardag. Það var Rasmus Paludan, formaður danska hægriöfgaflokksins Stram Kurs, sem stóð fyrir því að kveikt var í eintaki af Kóraninum á fundinum.

Tobias Billström er utanríkisráðherra Svíþjóðar.EPA

Tjáningarfrelsi í landinu

Sænski utanríkisráðherrann Tobias Billström hefur gagnrýnt mótmælin, en bendir á að tjáningarfrelsi sé við lýði í Svíþjóð. Það þýði þó ekki að sænsk stjórnvöld eða ráðherrann sjálfur styðji þær skoðanir sem hafi verið viðraðar á fundinum.

Varðandi orð Erdogan nú segir Billström að hann vilji skilja betur hvað það er sem forsetinn eigi við áður en hann tjáir sig nánar. „Svíþjóð mun virða samkomulagið milli Svíþjóðar, Finnlands og Tyrklands varðandi NATO-aðildina,“ segir Billström.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×