Enski boltinn

Sjáðu Dagnýju henda Liverpool út úr bikarnum í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir fagnar sigurmarki sínu fyrir West Ham á móti Liverpool í gær.
Dagný Brynjarsdóttir fagnar sigurmarki sínu fyrir West Ham á móti Liverpool í gær. Getty/ Simon Marper

Dagný Brynjarsdóttir var hetja West Ham liðsins í sögulegum sigri á Liverpool í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í gærkvöldi.

Dagný skoraði eina mark leiksins þremur mínútum fyrir leikslok og sá til þess að West Ham er komið í fyrsta sinn í undanúrslit keppninnar.

Dagný bar fyrirliðabandið hjá West Ham en hún hefur átt magnað tímabil með Lundúnaliðinu.

Dagný skoraði markið mikilvæga með laglegum skalla eftir fyrirgjöf frá hinni frönsku Viviane Asseyi. Klassískt mark hjá okkar konu þar sem hún á frábært hlaup inn í teig og er rétt kona á réttum stað.

Þetta var áttunda mark Dagnýjar á tímabilinu. Hún hefur skorað fimm mörk í tólf leikjum í deildinni og þrjú mörk í fjórum bikarleikjum. Hún skoraði sex mörk allt síðasta tímabil og hefur því þegar bætt þann árangur.

Hér fyrir neðan má sjá þetta mikilvæga og glæsilega mark hjá íslensku landsliðskonunni í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×