Íslenski boltinn

Aftur til Akur­eyrar eftir níu ár og núna er hún lands­liðs­fyrir­liði

Sindri Sverrisson skrifar
Tahnai Annis með fyrirliðabandið í landsleik Filippseyja gegn Tonga á síðasta ári.
Tahnai Annis með fyrirliðabandið í landsleik Filippseyja gegn Tonga á síðasta ári. Getty/Luis Vuniegra

Tahnai Annis, 33 ára gamall miðjumaður frá Bandaríkjunum, mun spila með knattspyrnuliði Þórs/KA á komandi leiktíð eftir að hafa síðast spilað með liðinu sumarið 2014.

Annis var meðal annars í Íslandsmeistaraliði Þórs/KA árið 2012 og þekkir vel til þjálfarans Jóhanns Kristins Gunnarssonar sem í vetur tók á nýjan leik við þjálfun Akureyrarliðsins.

Á þremur árum á Íslandi skoraði Annis 21 mark í 72 leikjum fyrir Þór/KA, og var valin besti leikmaður liðsins árið 2013. Hún er bæði með bandarískan og filippseyskan ríkisborgararétt og hefur frá árinu 2018 leikið með landsliði Filippseyja, þar sem hún er núna fyrirliði.

Jóhann þjálfari fagnar því mjög að endurheimta Annis:

„Hún er auðvitað gæðaleikmaður, við vitum það frá því að hún var hér 2012-14, en lykilatriði fyrir okkur núna er að fá reynslu inn í hópinn, það er stórt atriði fyrir okkur eins og hópurinn er samsettur. Hún gerir alla leikmenn í kringum sig betri. Okkar ungi og efnilegi hópur hefur mjög gott af því. Þetta á eftir að hjálpa okkar leikmönnum sem fyrir eru mjög mikið. Auðvitað er hún líka frábær leikmaður og það spilar vissulega inn í þessa ákvörðun hjá okkur,“ segir Jóhann á heimasíðu Þórs/KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×