Erlent

Vopna­fram­leiðandinn R­hein­metall vill senda skrið­dreka til Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rheinmetall er reiðubúið til að senda skriðdreka til Úkraínu.
Rheinmetall er reiðubúið til að senda skriðdreka til Úkraínu. AP/Martin Meissner

Þýska vopnaframleiðslufyrirtækið Rheinmetall getur séð Úkraínumönnum fyrir 139 Leopard skriðdrekum ef þörf krefur. Frá þessu greindi talsmaður Rheinmetall í samtali við fjölmiðlasamsteypuna RND.

Talsmaður Rheinmetall segir fyrirtækið geta afhent 29 skriðdreka í apríl eða maí og 22 til viðbótar í lok árs eða ársbyrjun 2024.

Stjórnvöld í Þýskalandi sæta nú miklum þrýstingi frá Úkraínu og öðrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins, til að mynda Póllandi, um að heimila útflutning Leopard skriðdreka til Úkraínu. Þjóðverjar hafa neitunarvald hvað þetta varðar, þar sem skriðdrekarnir eru framleiddir í Þýskalandi.

Sérfræðingar áætla að þrettán ríki Evrópu eigi um það bil 2 þúsund Leopard skriðdreka, sem gætu nýst Úkraínumönnum.

Ráðamenn í Þýskalandi hafa sagt ákvörðun yfirvofandi en enn sem komið er hefur Olaf Scholz kanslari ekki tekið í gikkinn, hvorki varðandi útflutning frá Þýskalandi né öðrum ríkjum.

Þýsk stjórnvöld virðast veigra sér við því að taka skrefið ein og óstudd og hafa ýtt á að Bandaríkjamenn sendi þá einnig skriðdreka til Úkraínu. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur hins vegar sagt að hvert og eitt ríki verði að taka sjálfstæða ákvörðun um það hvernig það hagar stuðningi sínum.

Tregðu Þjóðverja má rekja til mögulegra viðbragða Rússa, sem munu líklega líta á skriðdrekasendingarnar sem verulega stigmögnun. Þá myndu þær falla vel að áróðri Rússa um að stríðið í Úkraínu sé í raun stríð Nató við Rússa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×