Að því er kemur fram í frétt BBC var flugfélögum tilkynnt í gærkvöldi að þau þyrftu að takmarka flugferðir um flugvöllinn um fimmtán prósent vegna veðurs og takmarkana hjá flugumferðarstjórn.
Um sex stiga frost og slæmt skyggni var á vellinum í morgun og er gul þokuviðvörun bresku veðurstofunnar í gildi til klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma. Mest fór frost niður í 8,4 gráður en nóttin var sú kaldasta frá desember 2010 og sú kaldasta í janúar frá 1987.
Ferðum til Berlínar, Amsterdam og Miami meðal annars hefur verið aflýst á vellinum. Ein vél frá British Airways er á áætlun frá Heathrow til Keflavíkur í dag og er áætluð koma skömmu eftir hádegi. Um hálftíma síðar er British Airways síðan með flugferð á áætlun aftur til Heathrow.
Í tilkynningu frá British Airways segir að unnið sé að því að koma farþegum á leiðarenda eins fljótt og auðið er og þeir beðnir afsökunar.
Heathrow just recorded its coldest night since December 2010 and coldest January night since -9.1C in 1987 pic.twitter.com/ncTAnw78sj
— Met Office (@metoffice) January 23, 2023