Erlent

Flugferðum aflýst á Heathrow vegna veðurs

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
British Airways hefur þurft að aflýsa um 80 flugferðum.
British Airways hefur þurft að aflýsa um 80 flugferðum. Getty/Robert Smith

Raskanir eru á Heathrow flugvelli í dag vegna frosts og þoku en British Airways hefur þurft að aflýsa um 80 flugferðum vegna veðurs. Nóttin var sú kaldasta í meira en áratug. Engar raskanir virðast vera á ferðum félagsins til og frá Íslandi í dag.

Að því er kemur fram í frétt BBC var flugfélögum tilkynnt í gærkvöldi að þau þyrftu að takmarka flugferðir um flugvöllinn um fimmtán prósent vegna veðurs og takmarkana hjá flugumferðarstjórn.

Um sex stiga frost og slæmt skyggni var á vellinum í morgun og er gul þokuviðvörun bresku veðurstofunnar í gildi til klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma. Mest fór frost niður í 8,4 gráður en nóttin var sú kaldasta frá desember 2010 og sú kaldasta í janúar frá 1987.

Ferðum til Berlínar, Amsterdam og Miami meðal annars hefur verið aflýst á vellinum. Ein vél frá British Airways er á áætlun frá Heathrow til Keflavíkur í dag og er áætluð koma skömmu eftir hádegi. Um hálftíma síðar er British Airways síðan með flugferð á áætlun aftur til Heathrow.

Í tilkynningu frá British Airways segir að unnið sé að því að koma farþegum á leiðarenda eins fljótt og auðið er og þeir beðnir afsökunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×