Enski boltinn

Guardiola hraunaði yfir liðið sitt og stuðningsmenn þrátt fyrir sigur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola var allt annað en sáttur þrátt fyrir endurkomusigur.
Pep Guardiola var allt annað en sáttur þrátt fyrir endurkomusigur. AP/Dave Thompson

Manchester City vann flottan endurkomusigur á Tottenham í ensku úrvalsdeildinni en knattspyrnustjórinn Pep Guardiola var mjög ósáttur út í allt og alla eftir leikinn.

City liðið lenti 2-0 undir á heimavelli í fyrri hálfleik en leikmenn fengu greinilega orð í eyra hjá spænska stjóranum og snéru við leiknum í þeim síðari með fjórum mörkum.

Riyad Mahrez skoraði tvö mörk og átti mikinn þátt í hinum tveimur sem Julian Alvarez og Erling Haaland skoruðu.

City liðið mátti alls ekki við því að missa stig í titilbaráttunni við Arsenal og Pep Guardiola var allt annað en ánægður með hvernig liðið og stuðningsmenn mættu í þennan leik.

„Það er brotið fjórum sinnum á okkur en það komu engin viðbrögð,“ sagði Pep Guardiola.

„Það var enginn töggur í mönnum og ekkert hugrekki. Við vorum heppnir en ef við breytum þessum ekki sem fyrst þá munum við tapa stigum,“ sagði Guardiola.

„Ástríðan, eldmóðurinn og löngunin í að vinna var hvergi sjáanleg frá fyrstu mínútu. Það var eins með stuðningsmennina okkar en það heyrðist ekkert í þeim í 45 mínútur,“ sagði Guardiola.

„Þeir bauluðu af því að við vorum að tapa en kannski er það eins og með okkar lið að menn eru bara í þægindarammanum eftir fjóra titla á fimm árum. Eftir að við skoruðum þá komu viðbrögð frá þeim en það er ekki það sem ég er að tala um,“ sagði Guardiola.

Guardiola segir að liðið hans verði að fara að kveikja á sér eftir menn ætla að ná Arsenal.

„Engin spurning, við erum búnir að missa eldmóðinn og þess vegna erum við að fá á okkur mörk í hverjum einasta leik. Í dag vorum við heppnir en í næsta leik verðum við ekki eins heppnir. Ég vil fá stuðningsmennina mína til baka og hafa þá með okkur hér. Ekki stuðningsmennina sem fylgja okkur á útivöllum því þeir eru frábærir,“ sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×